*

Veiði 19. júlí 2014

Prins Valiant og fluguveiðin

Í gegnum allan veiðidelluferil Pálma Gunnarssonar hefur einhver fyrirmynd leitt hann áfram.

Pálmi Gunnarsson

Þegar ég var lítill safnaði ég teiknimyndasögum um prins Valiant. Í einni þeirra veiddi hetjan spræka urriða með bambusstöng og ef minnið bregst mér ekki, flugu á enda línu sem fest var við stangartoppinn. Það var eitthvað við stemminguna í myndinni sem kveikti í mér og ég var ekki í rónni fyrr en ég fékk lánaða kaststöng hjá mági mínum. Dorgið á bryggjunni vék þar með fyrir merkilegri veiðiskap með háþróaðri Abu Garcia kaststöng og daglöngum ferðum í nærliggjandi silungsvötn. Ég nefni Prins Valiant og þau áhrif sem þessi vopnfimi prins hafði á mig veiðandi urriða á sólríkum degi við fallega silungsá, vegna þess að í gegnum allan minn veiðidelluferil hefur einhver fyrirmynd, einhver lærimeistari og áhrifavaldur, leitt mig áfram. Og þegar ég hugsa betur um það þá var það þessi fallega stemming í teiknimyndabókinni sem leiddi mig á endanum frá misþrifalegri beituveiði í fang hinnar göfugu fluguveiðiþróttar sem margir andans menn hafa tengt við list og upphafningu sálarinnar.

Í byrjun ferils míns sem fluguveiðimaður var ósköp lítið sem minnti á listfengi. Gatan var á stundum grýtt og erfið, þar sem stærstu átökin voru við brothætt sjálfið og oft á tíðum ofvaxið egóið sem þreifst á fræguveiðikallaþvættingi, þar sem upphafningin fólst í miklu magni af steindauðum fiskum og misgáfulegum viðtölum með montmyndum í veiðitímaritum. Á þeim tíma var ekkert fínt við fluguveiðina hjá mér, engin mýkt, engin tenging. En það breyttist fyrir tilstilli góðra manna. Í dag geng ég auðmjúkur til veiða og þakka fyrir að ennþá eru nokkrar ár í lagi á okkar fagra landi, sem er ekki endilega víst að verði ef fram fer sem horfir. Falleg málverk missa lit og skemmast í aldanna rás ef ekki er farið vel með þau. Það sama á við um listaverk allra listaverka, móður náttúru. Við sem elskum að ganga til veiða ættum að hafa það í huga og haga okkurí samræmi við það.

Pistill Pálma birtist í Viðskiptablaðinu 17. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.

Stikkorð: Úr hylnum