*

Bílar 7. september 2012

Prius Plug-In stungið í samband og hlaðinn fyrir aksturinn

Nýjasta viðbótin við Prius fjölskylduna verður frumsýnd á morgun.

Róbert Róbertsson

Toyota Prius Plug-In er nýjasta viðbótin við Prius fjölskylduna en bíllinn dregur allt að 25 km á rafmagni eingöngu. Hægt er að stinga bílnum í samband og hlaða þannig rafgeyminn á 90 mínútum áður en haldið er af stað út í umferðina. Þetta er svolítið sérstakt og nánast eins og að hlaða gemsann. Þegar rafhlaðan tæmist skiptir bíllinn sjálfkrafa yfir á Hybrid bensínvélina.

Bíllinn kemst úr kyrrstöðu í hundraðið á 11,4 sekúndum og hámarkshraðinn er 180 km. Hægt er að velja á milli fjögurra akstursstillinga. EV-stillingin nýtir rafhlöðuna fyrst og fremst og HV-stillingin býður upp á sömu Hybrid Synergy Drive®-eiginleika og venjulegur Prius. Eco-stillingu hentar vel í venjulegum akstri og loks er það EV-City stillingin er notar eingöngu orku frá rafhlöðunni. Bíllinn er mjög hagkvæmur, eyðslugrannur og umhverfisvænn og þá auðvitað sérstaklega þegar ekið er eingöngu á rafmagni.

Farangursrýmið í Prius Plug-In er mjög rúmgott. Sérstakt rými fyrir hleðslusnúruna er undir gólfinu og er því auðveldlega hægt að koma fyrir þremur golfsettum í skottinu. Þetta er þriðji meðlimurinn í Priusfjölskyldunni en fyrir eru hefðbundinn Prius, 5 manna fjölskyldubíll og Prius+ sem er sjö sæta bíll.

Pruis Plug-In verður frumsýndur á opnunarhátíð Toyota í Kauptúni á morgun laugardag frá kl. 12 - 16. Auk glæsilegrar bílasýningar býður Toyota til fjölskylduskemmtunar þar sem m.a. Einar Mikael sjónhverfingamaður verður með skemmtilega sýningu.

Myndband af Prius Plug-in.

Stikkorð: Prius