*

Matur og vín 28. desember 2019

Púrtvín og kampavín Arnars

Arnar Sigurðsson vínsérfræðingur mælir með tveimur púrtvínum og tveimur kampavínum.

Trausti Hafliðason

Arnar Sigurðsson er eigandi Santewines sem flytur inn vín frá mörgum helstu vínframleiðendum Evrópu. Arnar er lesendum Viðskiptablaðsins að góðu kunnur enda reglulega ritað greinar um vín í blaðið. Í vínumfjöllun Áramóta, tímarits Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, bendir Arnar lesendum á góð púrtvín og kampavín frá bænum Dizy í Champagne-héraði.

Niepoort Vintage 2005 & Cockburn’s Bicentenary Vintage Port 2015

Þegar kemur að jólavínum er auðvitað fyrsta spurningin hvaða púrtvín en ekki hvort. Þó undarlegt megi virðast má finna nokkur áhugaverð og jafnvel þolanlega verðlögð púrtvín í einokunarverslunum hins opinbera, a.m.k. þeim stærri, en fyrir þá sem búa á landsbyggðinni má benda á hina rómuðu vefverslun www.atvr.is. Eins og nafnið gefur sterklega til kynna koma öll púrtvín frá Duoro-dalnum í Portúgal og bera höfuð og herðar yfir alla aðra vínframleiðslu svæðisins. Sömuleiðis hafa árgangspúrtvín mikla yfirburði yfir svokölluð ,,tawny”.

Sá er þetta ritar getur samt játað að vera í hópi tækifærispúrtvínsneytenda, sem gjarnan drekka vínið einu sinni á ári og þá oftast yfir jólin enda engin arineldur á heimilinu. Púrtvín eru upphaflega rauðvín sem eru við það að gerjast en eru ,,styrkt” með eimuðu víni sem stoppar gerjunina og síðar geymd á tunnum og að endingu í flöskum. Rétt eins og með kampavín þá má segja að púrtvínið sé allt eins bresk uppfinning eins og portúgölsk. Á 17. öld þegar þess tíma ,,Trump” olli hnökrum á viðskiptum milli Frakka og Breta, lögðu breskir vínkaupmenn leið sína til Portúgal og líkaði nokkuð vel við hin fullþroskuðu og dökku rauðvín en bættu brandy út í fyrir flutninginn til Bretlands. Styrkingin gefur af sér vín um það bil 20% í áfengismagni.

Þó að vissulega sé oft vandi að finna tíma til að drekka púrtvín þá má benda á að opnuð flaska af púrtvíni geymist ágætlega í 1-2 vikur. Fyrir unnendur blámygluosta (og þá erum við ekki að tala um hið latexbragðandi íslenska ostlíki) má hiklaust mæla með púrtvíni og líklega er ekkert vín sem gæti farið betur með súkkulaði en einmitt púrtvín en öfugt við ostana að þá höfum við einmitt gott aðgengi að einu besta súkkulaði heims sem er Omnomm. Tímaritið WineSpectator gefur t.d. Niepoort 2005 ágætis einkunn eða 91. Á svipuðu róli er Cockburns, reyndar öllu yngra eða 2015 árgangur, sem fær 92.

Niepoort Vintage 2005 — 11.111 krónur

Cockburn’s Bicentenary Vintage Port 2015 — 11.490 krónur.

Jacquesson Cuvee 740 & Jacquesson Avize Champ Cain

Við vitum fullvel, eins og ríkisvínsérfræðingarnir hjá ÁTVR að ,,freyðivín eru allskonar” og þá líklega einnig fyrir ,,allskonar” fólk jafnvel. Fyrir þá sem vilja nú breyta út af vananum og prófa eitthvað nýtt og spennandi fyrir jólin eða áramótin nú eða bara hvenær sem er þá er óhætt að mæla með kampavínunum frá Jacquesson sem stofnað var 1798 en er staðsett í bænum Dizy í Champagne héraði. Afar fátítt er að fá vín sem á uppruna sinn í þorpinu Dizy og klárlega einstakt hér á landi. Hér er í öllu falli á ferðinni vín sem er í senn með mikla sérstöðu og er afar ljúffengt.

Jacquesson Cuvee 740 — 7.666 krónur.

Jacquesson Avize Champ Cain — 16.989 krónur.

Fjallað er um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember. Þá munu áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Vín  • vínumfjöllun  • Arnar Sigurðsson