*

Tölvur & tækni 8. ágúst 2015

Púslið sem vantaði

Sway er snjallsímaforrit sem einfaldar greiðslur og skiptingu kostnaðar innan hópa, stórra sem smárra.

Alexander F. Einarsson

Íslenska snjallsímaforritið Sway kom út á dögunum fyrir iPhone síma og verður fljótlega í boði fyrir Android stýrikerfið. Forritið gerir vinum og kunningjum mun þægilegara fyrir þegar kemur að því að skipta kostnaði og millifæra og er hluti af hinni svokölluðu „FinTech“ byltingu sem kemur til með að gerbreyta fjármálageiranum á næstu árum.

Sway auðveldar millifærslur milli einstaklinga með því að bjóða upp á eitt heildstætt kerfi fyrir alla, óháð hvaða viðskiptabanka notendur tilheyra. Með Sway er því hægt að greiða vinum beint af greiðslukorti, rukka aðra eða deila kostnaði á vinahópinn á afar notendavænan og einfaldan hátt.

„Sem dæmi má nefna einn aðila sem kaupirí matinn fyrir matarboð, síðan er annar sem sér um drykkjarveigar og kannski seinasti aðilinn kaupir í eftirréttinn. Með Sway má gera þetta upp með því að senda út greiðslubeiðnir í kross og ganga þannig frá útistandandi skuldum jafnóðum,“ segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Sway.

Viðbrögðin jákvæð

Hann segir að tímarnir hafi breyst, ungt fólk í dag gangi ekki um með reiðufé og á sama tíma sé það mjög tengt og búið að alast upp við ýmsa samfélagsmiðla. Sway-forritið leggur mikið upp úr því að vera myndrænt þó það sérhæfi sig fyrst og fremst í greiðslum.

„Maður sér á vinsælustu samskiptamiðlunum að það snýst allt um myndræn samskipti í dag. Samskipti ein og sér eru ekki nóg. Þau þurfa jafnframt að vera áhugaverð og þá jafnast myndir á við 1000 orð,“ segir Arnar og nefnir sem dæmi Instagram og Snapchat.

Hann segir greinilegt að þörf sé á forriti sem Sway, enda ganga flest snjallsímaforrit út á að leysa hin ýmsu vandamál og gera lífið þægilegara.

„Lífstíll fólks hefur breyst og kannski er kominn tími til að greiðslukerfi aðlagi sig að nýjum háttum. Sway er lífsstílsapp og virðist vera það púsl sem vantaði. Þótt að appið er nýkomið út þá er gaman að sjá hve viðbrögðin eru mikil og jákvæð. Sérstaklega gaman er að heyra frá fólki hvað notendatilvikin eru mismunandi,“ segir Arnar. Sem dæmi tók ungur drengur til í garði nágranna síns, sendi mynd og greiðslubeiðni að verki loknu og fékk þóknunina greidda um hæl í gegnum Sway.

Hugsað sem samfélagsnet

Gunnar Helgi Gunnsteinsson, viðskiptastjóri og einn stofnandi Sway, nefnir þrjú meginatriði í útfærslu og hönnun sem gera Sway ólíkt öðrum millifærsluöppum.

„Í fyrsta lagi er Sway hannað líkt og samfélagsnet, þar sem hver notandi velur sér notendanafn sem auðvelt er að muna og gefa upp til annarra. Kennitölur og reikningsnúmer heyra því sögunni til. Hægt er að mynda traust vinasamband við fólk í kerfinu og eru því allir helstu vinir aðgengilegir í einum vinalista. Auðvelt er að finna vini í gegnum aðra samfélagsmiðla líkt og Facebook,“ segir Gunnar.

Í öðrulagi leggi Sway mikla áherslu á vinahópa, ekki einungis sé hugsað um millifærslur á milli tveggja aðila heldur hópa í heild sinni sem þurfa að gera upp kostnað. Á ferðalagi sé t.d. hægt að deila kostnaði fyrir sérhverjum hlut jafnóðum þannig að þegar ferð er lokið er allt uppgert.

„Auðvelt er stilla upphæðir ef einhverjir í hópnum eiga að greiða meira eða minna en hinir og ef einhver í hópnum er ekki í Sway fær sá hinn sami sms með tengil inn á vefgreiðslugátt Sway. Flestir tilheyra fleiri en einum vinahópi og þessi nálgun því hugsuð til að stuðlað að meiri dreifni á milli vinahópa en ella,“ segir Gunnar.

Í þriðja lagi leggur Sway mikið upp úr því að tengja ljósmyndir við greiðslur. Þannig verður forritið líkara samfélagsmiðli.

„Sway er eina millifærsluappið í heimi sem tekur þá nálgun alla leið. Sumum þykir skrítið í fyrstu að taka mynd til að millifæra eða til að biðja einhvern um greiðslu, en reynsla okkar er sú að það auki notagildi umtalsvert. Notendur virðist venjast því um leið og vilja þá ekki sjá neitt annað. Myndirnar lýsa því sem verið er að greiða eða rukka fyrir betur en hægt væri að koma í orð með góðu móti, hvort sem myndin sé af vinahópnum á veitingastaðnum eða af kassakvittun,“ segir Gunnar. Bætir hann því við að með ljósmyndum skapist gott rými fyrir einkahúmor innan vinahópa. Slíkt geti hjálpað til við að umbreyta ferli sem flestum þykir leiðinlegt í eitthvað skemmtilegt og áhugavert.

Stefnt á erlenda markaði

Markmið fyrirtækisins er að komast inn á erlenda markaði, enda á Sway alveg jafn vel við um allan heim.

„Hvað framtíðina varðar þá erum við búnir að vera að þróa app fyrir heiminn. Heimurinn í dag er opinn og appið hentar vel fyrir þann lífsstíl sem fólk hefur tileinkað sér í dag. Við fæddumst á Íslandi og byrjuðum á að koma kerfinu út hér en stefnum á að gefa það út á nokkrum mörkuðum á næstu misserum,“ segir Arnar. Sway hafi nýlega hlotið fjármögnun frá fjárfestingarfyrirtækinu Investa, sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum í tækni- og hugbúnaðargeiranum sem eiga góða möguleika á að hasla sér völl erlendis.

„Þessi fjárfesting skiptir okkur miklu máli, því Investa teymið hefur umtalsverða reynslu í stofnun fyrirtækja sem og fjárfestingum í ungum og spennandi tæknifyrirtækjum. Fyrirtækin sem þeir hafa áður fjárfest í eru meðal annars Meniga og Mint Solutions. Sjálfir komu þeir t.a.m. að stofnun OZ, Datamarket og Modio,“ segir Arnar, en Haraldur Þorkelsson úr Investa teyminu mun taka sæti í stjórn Sway.

Stikkorð: tækni  • app  • Sway