*

Hitt og þetta 16. júlí 2020

Ráð fyrir fólk í atvinnuleit

Andrés Jónsson, ráðgjafi á sviði samskipta, stefnu og ráðninga, gefur almenn heilræði til þeirra sem í atvinnuleit eru.

Andrés Jónsson, ráðgjafi á sviði samskipta, stefnu og ráðninga, fjallar um fólk í atvinnuleit í pistli sínum sem ber nafnið „Þú mátt gjarnan hafa mig í huga!“ Þar fer hann yfir hvernig best sé að haga atvinnuleit, hvað skili yfirleitt bestum árangri og hvað beri að varast.

Andrés segir algengan misskilning að fólk mæli með öðru fólki til að gera þeim greiða. Hans reynsla sé svo að það mæli yfirleitt með fólki sem greiða við þann sem er að leita í tiltekið starf, eingöngu ef það telur að viðkomandi smellpassi í hlutverkið og muni án efa standa sig vel.

Því skuli maður ekki bara segja frá atvinnuleit sinni heldur einnig frá því hvað maður getur gert, hvar og hverjum maður telji það nýtast best. Fremur en að biðja fólk almennt um að „hafa þig á bakvið eyrað ef það heyrir af einhverju — þú sért opin/n fyrir öllu“.

Hann telur það ekki líklegt til árangurs þegar atvinnuleitendur segjast vera “opnir fyrir öllu”. Það eru fáir að leita að slíkum starfsmanni. Flestir eru að leita að einhverjum sem yrði mjög góður/fær í tilteknu hlutverki.

Að líta í eigin barm

Að eigin sögn skilar það yfirleitt bestum árangri í atvinnuleit að gera raunsanna greiningu á sjálfum sér og um leið greiningu á tækifærunum á markaðnum (makró og míkró) og algengum vandamálum sem margir stjórnendur eru að glíma við um þessar mundir.

Það fylgir því talsverð vinna að fara í ítarlega greiningu á eigin styrkleikum og reynslu og hvernig hún geti nýst best. Hann myndi þó alltaf ráðleggja fólki að fara í slíka vinnu og þannig þrengja valið, áður en það byrjar að láta fólk vita af sér.

Þannig getur maður verið skýrari þegar maður ræðir við fólk um hvers konar virði maður geti skilað fyrirtæki eða stofnun á tilteknum sviðum og í hvers konar hlutverkum.