*

Menning & listir 18. janúar 2013

Ráðist á listrænan stjórnanda Bolshoi með sýru

Læknar berjast við að bjarga sjón Sergei Filin, en jafnvel er talið að árásin sé til komin vegna deilna innan Bolshoi.

Listrænn stjórnandi Bolshoi balletsins í Moskvu, Sergei Filin, liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að sýru var kastað í andlit hans seint í gærkvöldi. Að því er segir í frétt BBC er talið að árásin eigi rætur að rekja til innbyrðis átaka milli mismunandi hópa dansara hjá Bolshoi.

Filin tók við sem listrænn stjórnandi Bolshoi í mars árið 2011 og hefur það orð á sér að bera ekki mikla virðingu fyrir tilfinningum dansaranna. „Ef hann taldi einhvern ekki vera tilbúinn til að taka að sér ákveðið hlutverk eða vera ófæran um það þá fékk viðkomandi ekki að gera það, segir framkvæmdastjóri Bolshoi balletsins, Anatoly Iksanov,“ í samtali við rússneska sjónvarpsstöð.

Strax árið 2011 hættu tvær af stjörnum balletsins, þau Natalia Osipova og Ivan Vasiliev, í mótmælaskyni. Þau voru ósátt við þær breytingar sem Filin hafði gert á dagskrá balletsins. Þá gagnrýndi önnur stjarna, Nikolai Tsiskaridze, Filin harkalega í fyrra.

Filin var á leið heim í miðborg Moskvu í gærkvöldi þegar maður gekk að honum, kallaði til hans og kastaði sýrunni í andlit hans. Læknar berjast nú við að bjarga sjón Filins. Hann hafði um nokkurra mánaða skeið fengið fjölda hótana.

Stikkorð: Bolshoi  • Ballet