*

Hitt og þetta 3. desember 2013

Ræningi finnur fórnarlamb sitt á Facebook áratugum síðar

Michael Goodman rændi Claude Soffel fyrir þrjátíu og fimm árum síðan. Goodman iðraðist svo mikið að hann fann Soffel á Facebook.

Michael Goodman gekk upp að Claude Soffel fyrir utan náttúruvísindasafnið í New York og rændi hann fyrir þrjátíu og fimm árum síðan. Hann hafði strætókort upp úr krafsinu.

Um daginn sá Goodman síðan frétt um að beyglusjoppa Soffel hefði lokað nýlega. Goodman mundi eftir nafninu, fann Soffel á Facebook og sendi honum skilaboð.

Hann skrifaði: „Þú manst kannski ekki eftir þessu en 1976 eða 1977 vildi ég virka rosalega töff og gekk upp að þér og rændi strætókortinu þínu. Ég hef aldrei gleymt þessu atviki eða nafninu þínu. Loksins get ég sagt að mér þykir leitt að hafa tekið strætókortið af þér.“

Soffel tók við afsökunarbeiðninni og segist sjálfur ekki hafa gleymt atvikinu heldur. Afsökunarbeiðnin hefur vakið mikla athygli fjölmiðla en BBC fjallar nánar um málið hér.

Stikkorð: Gleði  • Svik og prettir