*

Bílar 20. febrúar 2021

Rafbílar á fleygiferð

Ríflega 250% aukning var í nýskráningum hreinna rafbíla hér á landi á síðasta ári. Markaðshlutdeild rafbíla hefur aukist ár frá ári.

Róbert Róbertsson

Tesla Model 3 rafbíllinn var mest selda einstaka bíltegundin hér á landi á síðasta ári en alls seldust 858 bílar af þeirri tegund 2020. Þetta markar tímamót því aldrei áður hefur rafbíll trónað á toppnum í bílasölu á Íslandi. Nú í upphafi árs hafa kaupendur nýrra bíla getað valið úr 23 tegundum hreinna rafbíla frá 15 framleiðendum. Undirgerðirnar eru alls 64.

Mikil þróun hefur orðið í rafbílum á síðustu árum. Þar munar mestu um öflugri rafhlöður og meiri drægni bíla. Bílaframleiðendur eru langflestir að auka framleiðslu rafbíla og mikil keppni er framundan á þessum markaði.

Þá hafa margir framleiðendur komið fram með sérlega framúrstefnulega og flotta hönnun á rafbílum sínum að undanförnu. Má þar nefna hinn netta borgarbíl Honda e, sem kom á markað sl. haust, og sportjeppann Jaguar I-Pace sem var valinn Bílll ársins hér á landi 2020 og Heimsbíll ársins. Báðir þessir bílar hafa unnið til fjölda hönnunarverðlauna fyrir fallegt og nútímalegt útlit.

Umhverfismildari og hagkvæmari

Tengiltvinnbílar, sem hafa bæði rafhlöðu og brunahreyfil, hafa einnig verið mjög vinsælir en það eru hreinu rafbílarnir sem eru í mestri sókn. Vinsældir rafbíla eru mjög skiljanlegar. Þeir eru bæði umhverfismildari og hagkvæmari í rekstri.

Rafbílar brenna ekki jarðefnaeldsneyti og losa þar af leiðandi ekki CO2 út í andrúmsloftið. Þeir eru sömuleiðis ódýrari í rekstri og viðhaldi. Rafmagnið er ódýrara en aðrir orkugjafar eins og bensín, dísil og metan. Það er minna viðhald að eiga rafbíl því þeir eru einfaldari í uppbyggingu.

Það sem hefur helst hamlað rafbílavæðingunni hingað til eru innviðirnir þ.e. hvar mögulegt er að hlaða rafbíla fyrir utan heimilið. Margir hafa séð þá fyrir sér fyrst og fremst sem borgarbíla og ekki lagt í ferðalög.

Nú hefur hleðslustöðvum fjölgað mjög hér á landi á síðustu 1-2 árum og því orðið mun auðveldara að komast í hleðslu á ferðalagi um landið. Auk þess bjóða margir vinnustaðir upp á hleðslur fyrir rafbíla og á ferðalögum hafa hótel og jafnvel veitingastaðir verið viljug til að leyfa gestum að hlaða rafbíla sína.

Hraða rafbílavæðingu

Margir framleiðendur hafa hraðað rafbílavæðingu sinni, m.a. Mercedes-Benz, en þýski lúxusbílaframleiðandinn ætlar að kynna átta nýja rafbíla fyrir árslok 2022.

Þessi hröðun á rafbílaþróun hjá Mercedes-Benz er hluti af Ambition 2039 áætlun bílaframleiðandans sem miðar að því að rafbílar verði 50% af seldum bílum árið 2030 og árið 2039 verða allir bílar kolefnislausir. Hinir nýju rafbílar munu allir bera EQ nafnið sem er nýtt undirmerki Mercedes-Benz tileinkað rafbílum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér