*

Bílar 27. desember 2016

Rafdrifinn jeppi frá Audi

Audi mun kynna nýjan rafdrifinn jeppa á bílasýningunni í Detroit.

Audi mun kynna nýjan rafdrifinn jeppa á bílasýningunni í Detroit í næsta mánuði. Jeppinn hefur fengið heitið Q8 E-tron og verður hann á stærð við Q7 jeppann en með coupe-lagi svipað og þýsku samkeppnisaðilarnir BMW og Mercedes Benz setja fram með X6 og GLE Coupe sportjeppunum sínum. Miðað við E-tron nafnið verður Q8 eingöngu að öllum líkindum hreinræktaður rafbíll og í því ljósi er hann kannski frekar samkeppnisbíll við Tesla Model X. 

Þessi nýi Q8 jeppi verður nokkuð frábrugðinn öðrum Audi jeppum í hönnun bæði hvað varðar afturhallandi þaklínuna auk þess sem framendinn er með mikið breyttu grilli miðað við aðra fjölskyldumeðlimi frá Ingolstadt. Línurnar eru líka hvassari af myndum af bílnum að dæma en venjan er hjá Audi.

Innréttingin í Q8 á að vera mjög ríkuleg eins og í A8 sem er flaggskip Audi í fjölskyldubílaflota framleiðandans. Þar verður stór upplýsingaskjár áberandi sem stýrir fjölmörgum aðgerðum en minna er af tökkum en venjan er. Stefnan er að hinn nýi Q8 jeppi komi á markað seinni hluta næsta sumars.

Stikkorð: Audi  • Detroit  • Q8