*

Bílar 29. desember 2019

Rafdrifinn sendibíll frá Fiat

Fyrsti rafdrifni sendibíll Fiat er útfærsla af Ducato línu ítalska framleiðandans. Á næsta ári kemur svo metanútfærsla.

Fiat kynnti á dögunum fyrir blaðamönnum fyrsta rafdrifna sendibílinn sem fyrirtækið sendir frá sér.  Um er að rafdrifna útfærslu af hinum geysivinsæla Fiat Ducato, en hann hefur allt frá því að hann kom á markað fyrir 38 árum, verið með mest seldu sendibílum í Evrópu.

Rafdrifinn Ducato mun verða fáanlegur í öllum sömu stærðum og með sama flutningsrými og hefðbundinn Fiat Ducato er boðinn í dag eða frá 10m3 og upp í 17m3. Því má segja að hægt verði að fá rafdrifinn Ducato sem sé alveg eins útbúinn og hefðbundinn Ducato hefur verið í boði til þessa, en Fiat Ducato hefur verið leiðandi í sínum stærðarflokki með stærsta flutningsrýmið og mestu burðargetuna allt að 1.950 kg.  

Hægt verður að velja um rafmótora allt að 96 kW og með drægni á milli 220 og 360 km.  Hámarkshraði er 100 km/ klst og hámarkstog  280 Nm. Fiat Ducato í rafmagns-útfærslu verður fáanlegur á næsta ári en að sögn forsvarsmanna ÍSBAND, umboðsaðila Fiat Atvinnubíla, liggur ekki fyrir nákvæm dagsetning en hún verður kynnt um leið og hún liggur fyrir.

Á næsta ári verða Fiat Fioriono, Fiat Doblo og Fiat Ducato fáanlegir í metanútfærslum.

Stikkorð: Ítalía  • Evrópa  • Fiat  • rafmagn  • Floriano  • Ducato  • Doblo  • metan