*

Bílar 24. september 2021

Rafmagnað ljón á veginum

Nýr Peugeot e-Expert rafsendibíll er tímamótabíll í atvinnubílasögu franska bílaframleiðandans.

Róbert Róbertsson

Franski bílaframleiðandinn er þekktur fyrir að koma fram með fallega hannað bíla á undanfrönum árum og það er engin undantekning með þennan nýja rafsendibíl. Línurnar eru flottar og hönnunin smart bæði að innan sem utan. Ljónið er á sínum stað á grillinu að framan sem og að aftanverðu. Ættarmerki Peugeot  þekkja líklega allir.

Peugeot e-Expert er fáanlegur í tveimur lengdum; millilangur og langur. Moduwork-innréttingin er sniðug og lausnarmiðuð og býður upp á fellanleg framsæti og lúgu á þili til að flytja lengri hluti. Frakkarnir eru með hönnunina alveg á hreinu, það er löngu sannað.

Dregur allt að 330 km á rafmagninu
Reynsluakstursbíllinn er L2 eða millilangur sendibíll með 75 kW rafhlöðu með 11 kW 3 fasa hleðslustýringu. Hann er með allt að 330 km drægni á hreinu rafmagni miðað við WLTP staðal. Bíllinn er auk þess með fjarstýrðri forhitun sem tryggir að bíll sé heitur og þægilegur þegar lagt er af stað og það er mikill kostur.

Einfalt er að tímasetja, stöðva og virkja hleðslu í MyPeugeot® appinu ásamt því að tímastilla forhitun. Peugeot e-Expert þarf að vera með 50% hleðslu til að hægt sé að stilla forhitarann með fjarstýrðri virkni í MyPeugeot-appinu. Ef rafbíllinn er í hleðslu hefur forhitun ekki áhrif á drægnina.

Ríkulega búinn staðalbúnaði
Sendibíllinn er ríkulega búinn staðalbúnaði og kemur m.a. með bakkmyndavél, blindpunktsviðvörun með nálægðarskynjara að framan og aftan, Grip Control spólvörn með fimm stillingum, rennihurð á báðum hliðum, krossvið í gólfi hleðslurýmis, heilsársdekk, Bluetooth, Mirror link og Apple Car Play.

Nálægðarskynjararnir að framan og aftan gefa hljóðmerki til ökumanns og auka þannig enn á öryggið. Blindpunktsaðvörunin lætur ökumann vita ef bíll er í blinda punktinum með hljóðmerki og litlum ljósmerkjum í hliðarspeglunum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.