*

Bílar 31. maí 2017

Rafmagnaður sportbíll frá MG

Breski bílaframleiðandinn MG kemur fram með spennandi hugmyndabíl sem lofar góðu.

Breski bílaframleiðandinn MG hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarinn áratug en nú kemur MG fram með spennandi hugmyndabíl sem lofar sannarlega góðu.

Hinn nýi MG E-Motion er rafbíll sem er enn á hugmyndastigi en breski bílaframleiðandinn kynnti hann til leiks á bílasýningunni í Shanghai. Bíllinn er flottur sportbíll með tveimur vængjahurðum og er eins og klipptur út úr James Bond mynd. Hann er með línurnar í lagi og ljóst að eftir honum verður tekið. Að sögn MG þá kom hugmyndin með hönnunina á framljósunum frá London Eye parísarhjólinu við suðurbakka Thames ár hvað sem þeir meina nú með því hjá MG. 

Bíllinn á að draga rúma 400 km á rafmagninu samkvæmt upplýsingum frá MG. Bíllinn verður mjög aflmikill því hann mun komast úr kyrrstöðu í hundraðið á innan við 4 sekúndum. Þetta verður því hörkukerra ef hann fer í framleiðslu sem við vonumst nú auðvitað eftir.

Stikkorð: MG  • hugmyndabíll