*

Bílar 13. maí 2020

Rafmagnaður sportjeppi frá Skoda

Tékkneski bílaframleiðandinn undirbýr framleiðslu á nýjum sportjeppa sem verður hreinn rafbíll í þrem misöflugum útfærslum.

Róbert Róbertsson

Skoda er að undirbúa framleiðslu á nýjum sportjeppa sem ber nafnið Enyaq iV. Nafnið Enyaq kemur úr keltnesku og þýðir raunar írska nafnið Enya með stafinn Q sem er að finna í enda á nöfnum nýju Skoda sportjeppanna.

Þessi nýi Skoda verður hreinn rafbíll og verður framleiddur í verksmiðju bílaframleiðandans í Mlada Bolesav í Tékklandi síðar á þessu ári. Stefnt er að því að Enyaq iV komi á markað í byrjun árs 2021.

Enyaq er smíðaður á MEB grunni frá Volkswagen Group. Bíllinn er boðinn í þremur útfærslum með misöflugum rafhlöðum og hægt verður að fá hann fjórhjóldadrifinn. Enyaq verður í grunninn með 62 kWh rafhlöðu með drægni upp á um 390 km en dýrari og betur búinn útfærsla bílsins er með 82 kWh rafhlöðu og drægni upp á um 500 km á afturhjóladrifi en um 460 km á fjórhjóladrifi.

Hægt verður að fá Enyaq í enn aflmeiri útfærslu sem skilar 302 hestöflum og nær 100 km hraða úr kyrrstöðu á aðeins 6,2 sekúndum samkvæmt upplýsingum frá Skoda.

Stikkorð: Tékkland  • Skoda  • rafbíll  • Enyaq  • Mlada Bolesav