*

Bílar 1. september 2020

Rafmagnaður Volvo XC40 á leiðinni

Forpantanir á fjórhjóladrifnum nettum sportjeppa frá Volvo eru hafnar, en hann er 408 hestafla 100% rafbíll.

Róbert Róbertsson

Forpantanir á rafbílnum Volvo XC40 P8 AWD Recharge hefjast á miðnætti 1. september nk. í vefsýningarsal Brimborgar. Sýnis- og reynsluakstursbílar verða hjá Brimborg í nóvember og afhendingar til kaupenda hefjast vorið 2021.

Volvo XC40 P8 AWD Recharge er fjórhjóladrifinn nettur sportjeppi. Hann er 100% hreinn rafbíll, búinn tveimur rafmagnsvélum sem skila saman 408 hestöflum og 660 Nm togi og er bíllinn 4,9 sekúndur að ná 100 km. hraða. Drifrafhlaðan er 78 kWh og skilar jeppanum 400 km. í einni aksturslotu skv. WLTP staðli.

Hægt að fullhlaða á 40 mínútum

Bíllinn er búinn 11 kW hleðslubúnaði með Type 2 tengi og hægt er að hlaða drifrafhlöðuna í 320 km. drægni á aðeins 40 mínútum í 150 kW hraðhleðslustöð (DC). Í 11 kW eða stærri heimahleðslustöð (AC) eða sambærilegri stöð á vinnustað fullhleðst tóm drifrafhlaða í 100% drægni á aðeins 8 tímum.

Nýi Volvo XC40 P8 rafmagnsjeppinn hentar vel íslenskum aðstæðum því hann er með góðri veghæð og hárri sætisstöðu ásamt því að vera mjög praktískur með notendavænu rými fyrir farþega og farangur. Bíllinn er sjálfskiptur, 5 sæta með 452 lítra farangursrými sem er stækkanlegt í 1328 lítra auk þess að viðbótar farangursrými er í húddi. Dráttargetan er 1.500 kg. fyrir vagn með hemlum og hæð undir lægsta punkt er 17,6 sm.

Markmiðið að helmingur seldra Volvo verði rafbílar

Volvo XC40 P8 er fyrsti Volvo bíllinn sem kemur með innbyggðu Android Auto stýrikerfi með Google Maps leiðsögukerfi og gerir það kleift að nota Android öpp beint í bílnum. Þetta gerir það að verkum að mjög einfalt er að nota stýrikerfi bílsins. Einnig er staðalbúnaður þráðlaus speglun fyrir Apple Car Play.

Með Volvo XC40 rafmagnsjeppanum stígur Volvo enn eitt skrefið í átt að því markmiði að fyrir árið 2025 verði helmingur af öllum Volvo bílum keyptum á heimsvísu knúnir rafmagni eingöngu og hinn helmingurinn verði tvinnbílar. Nú þegar á árinu 2020 er sala Brimborgar á Volvo 96% tvinnbílar og ljóst að allir seldir Volvo bílar á Íslandi hjá Brimborg verða annaðhvort 100% hreinir rafbílar eða tvinnbílar árið 2021.

Stikkorð: Brimborg  • Volvo  • XC40