*

Bílar 21. október 2015

Nissan setur strauminn á sendibílamarkaðinn

Það var með mikilli tilhlökkun en einnig fortíðarþrá sem bílablaðamaður Viðskiptablaðsins tók við lyklum á Nissan E-NV200.

Haraldur Guðjónsson
 - hag@vb.is

Það er óhætt að segja að Nissan hafi veðjað á rafmagnið og farið af fullri alvöru í að smíða rafbíla fyrir almennan bílamarkað með smíði á Nissan Leaf. Á meðan aðrir framleið- endur ákváðu að fara krókaleiðir og veðja áfram á sprengihreyfilinn og nýta rafmagnið til hliðar ákvað Nissan að smíða alvöru rafmagnsbíla og hafa því náð ákveðnu forskoti nú þegar hinir framleiðendurnir eru að átta sig og eru byrjaðir að bjóða samkeppnishæfa rafmagnsbíla.

Nissan e-NV200 er þó fyrir mun sértækari markað. Hann er byggður á dísil sendibíl sem er nánast alveg eins, en því miður þá flytur BL hann ekki inn sem stendur þó svo að það standi til eftir því sem undirritaður best veit. Fyrir vikið er frekar erfitt að finna bíl til samanburðar.

Góður fyrir nýlenduvörur

e-NV200 er um einum rúmmetra stærri en Renault Kangoo og tæpum rúmmetra minni en Toyota Proace svo dæmi sé tekið. Stærð- ina myndi ég telja mjög heppilega til að keyra út nýlenduvörur á höfuðborgarsvæðinu, en bíllinn tekur tvær europallettur á þverveginn í sendibílaútgáfunni og með rennihurðir báðum megin er auðvelt að handtína vörur úr honum.

Aftur á móti er ekki hægt að stinga europalli inn um hliðarhurðirnar með lyftara. Frágangurinn á sendibílaútgáfunni er hefðbundið þil með glugga sem aðskilur klætt stýrishús og óklætt rými þar fyrir aftan með krókum í gólfi til að binda í. Bíllinn kemur í þremur útgáfum, í fyrsta lagi sem sendibíll (panel van) og einnig í fimm og sjö manna útfærslum sem eru klæddar að innan með rúðum, samlitum stuðurum og álfelgum svo eitthvað sé nefnt.

Undirritaður prófaði sendibílaútfærsluna og fimm manna útfærsluna. Allar útfærslurnar koma með blátannar tengingu við farsíma og bakkmyndavél, sem er frábært í svona bílum. Ég verð þó að segja að linsan á myndavélinni vísar óþægilega mikið niður og útsýnið því ekki eins gott og það er í Nissan Leaf bílnum mínum.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílum, sérblaði sem fylgdi með síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Nissan  • Nissan Leaf