*

Bílar 19. ágúst 2012

Rafmagnsbíllinn I-MiEv mættur til leiks

Biðin eftir rafmagnsbílnum Mitsubishi I-MiEv er nú loks á enda og eru sjö slíkir bílar nú kominn í almenningssölu hér á landi.

Allmikil eftirvænting hefur verið eftir komu rafmagnsbílsins Mitsubishi I-MiEv hingað til land en nú er biðin á enda því Mitsubishi I-MiEv er kominn í almenningssölu hér á landi. I-MiEv kom á fyrst á markað 2009 og er afurð þróunarvinnu Mitsubishi sem hófst árið 1966 þar sem framtíðarsýnin var að hanna bíl sem myndi aka 100% á rafmagni og með 0 gr. af Co2 í útblæstri.

Bíllinn á að komast 150 km á einni hleðslu samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda en gera má ráð fyrir að hámarksdrægni sé lærri hér á landi þar sem veðurfar og aðstæður eru ekki eins og þessar mælingar miðast við. Ef miðað er við 20.000 km akstur á ári þá er áætlaður orkukostnaður um 34.000 kr sem gerir um 350.000 kr. sparnað á ári í eldsneytiskostnað miðað við meðal bensínbíl samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Hekla, umboðsaðili Mitsubishi, er nú með sjö I-MiEv bíla til sölu og kostar bíllinn 3.890.000 kr. Þetta er í grunninn sami bíll og Peugeot iOn rafmagnsbíllinn sem hefur verið í sölu hjá Bernhard hér á landi. Þess má geta að rafmagnsbílar fá frítt í gjaldskyld bílastæði í 90 mínútur í Reykjavík ásamt því að í miðborginni má finna nokkur sérmerkt rafbílastæði þar sem hægt er að hlaða bílinn.