*

Bílar 31. ágúst 2019

Rafmögnuð upplifun

Líklega hafa fáir bílar fengið jafn góðar viðtökur og I-Pace en bíllinn hefur sópað til sín verðlaunum.

I -Pace var valinn Heimsbíll ársins 2019 á alþjóðlegu bílasýningunni í New York. Auk aðalverðlaunanna hlaut I-Pace hönnunarverðlaun og umhverfisverðlaun ársins sem Grænasti bíllinn. Alls hefur I-Pace unnið á sjötta tug alþjóðaverðlauna frá því að Jaguar kynnti bílinn. I-Pace hefur verið tekið með kostum og kynjum síðan bíllinn fór á markað, sérstaklega í Evrópu þar sem 75% bílanna eru seldir og innviðauppbygging hleðslustöðva er orðin þróuð.

I-Pace er fallega hannaður og afar tæknilega fullkominn rafbíll. Sportleg og straumlínulöguð hönnunin er flott með lækkandi þaklínu. Framgrillið er kraftalegt og mjó LED ljósin eru lagleg. Brettakantarnir eru nokkuð afgerandi en passa vel við flæðandi miðlínu bílsins. Hönnuðir bílsins unnu markvisst að því að straumlínulögunin drægi úr loftviðnámi til að ná sem mestri drægni og stöðugleika í bílnum. Árangurinn er sá að loftnámsstuðullinn er aðeins 0,29 d.

Miðstokkurinn er flæðandi með fleiri tökkum sem stýra aðgerðum í bílnum. Maður ýtir einfaldlega á takka til að setja bílinn í gíra, D, R, N, P. Þetta er ný nálgun og skemmtileg. I-Pace er með tveimur snertiskjáum. Touch Pro Duo-upplýsinga- og afþreyingarkerfið í bílnum samanstendur af 10“ snertiskjá sem felldur er inn í mælaborðið og neðri 5“ snertiskjá með fjölnota mælum. Þar hafa ökumaður og farþegar aðgang að nýjustu upplýsingum og afþreyingu og hægt er að samhæfa flesta Apple og Android snjallsíma við bílinn.

I-Pace er fjórhjóladrifinn fimm sæta sportjeppi með tvo rafmótora og 90kW rafhlöðu sem unnt er að hlaða frá 0-80% á innan við 45 mínútum með DC 100kW hleðslutæki. Bíllinn er gríðarlega aflmikill og rafmótorarnir skila honum 400 hestöflum og togið er 700 Nm. IPace er aðeins 4,8 sekúndur að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu. I-Pace er ekkert lamb að leika sér við og maður finnur það í akstrinum sem býður upp á rafmagnaða upplifun.