*

Bílar 9. desember 2017

Raggi Bjarna gerir bílinn ódauðlegan

Benedikt Franklínsson á nýjan og flottan Toyota Proace leigubíl. Raggi Bjarna tekur lagið í bílnum í tónlistarmyndbandi með laginu Call Me.

Róbert Róbertsson

„Ég var búinn að eiga bílinn í tvo daga þegar ég lánaði bílinn í skemmtilegt verkefni. Raggi Bjarna stórsöngvari og Kalli Olgeirs voru að gera myndband við lagið Call Me sem Raggi Bjarna syngur. Þetta er mjög skemmtilegt myndband og frábært lag með frábærum söngvara sem Raggi Bjarna er. Þeir spurðu mig hvað ég vildi fá borgað fyrir þetta en ég afþakkaði allar greiðslur. Ég sagði bara að ef ég fengi mynd af Ragga Bjarna í bílnum þá væri ég mjög sáttur. Myndin kom strax og ég er mjög ánægður með hana. Þegar ég segi kúnnunum mínum frá því að Raggi Bjarna hafi verið að taka lagið í bílnum þá verða þeir alveg orðlausir og vilja helst taka einn hring í viðbót í bílnum. Þetta vekur mikla og skemmtilega athygli. Það má segja að Raggi Bjarna geri bílinn ódauðlegan,“ segir Benedikt.

Kemur skemmtilega á óvart

,,Ég var búinn að vera á minni bíl, Toyota Avensis, og ákvað að stækka við mig til að geta tekið fleiri farþega. Ég var mjög ánægður þegar Toyota fór að bjóða upp á fjölfar- þegabíl í fyrsta sinn í langan tíma. Toyota Proace bíllinn er alveg frábær fjölfarþegabíll og ég er mjög ánægður með hann. Proace kemur mér raunar skemmtilega á óvart. Hann er þægilegur og þýður í akstri og það fer vel um ökumann og farþega í bílnum. Kúnnarnir eru líka ánægðir með bílinn og finnst hann þægilegur í alla staði,“ segir Benedikt.

Benedikt segir að bíllinn sé með 180 hestafla dísilvél og það sé fínn kraftur í honum. ,,Vélin er spræk og upptakið gott. Svo eru eyðslutölurnar fínar. Við erum með tölvukerfi í leigubílunum sem við notum alltaf. Hann er að eyða svona 9-9,5 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri sem er gott fyrir svona stóran bíl. Það er mikið af tækninýjungum í bílnum og góð akstursog öryggiskerfi sem er orðið nauðsynlegt í umferðinni í dag. Ekki síst þegar maður er á svona stórum bíl. Það eru skynjarar út um allt í bílnum og það er ekkert mál að fara um þröng bílastæði þar sem skynjararnir láta mann vita ef maður fer of nálægt. Þetta er sniðug tækni,“ segir hann.

Búnir að vera í öllum stjórnmálaflokkum

Benedikt nefnir að leigubílstjórar þurfi að starfa sem afleysingabílstjórar í talsvert langan tíma, 3-5 ár, áður en þeir fá úthlutað fullu leyfi sem leigubílstjórar. Ríkið úthlutar leyfunum til 5 ára í einu.

,,Það eru alls tæplega 600 leyfi leigubílstjóra í dag. Það má reikna með að vel yfir þúsund leigubílstjórar séu starfandi í dag. Við leigubílstjórar erum oft í diplómatísku hlutverki. Við þurfum að geta spjallað við kúnnana ef þeir vilja spjalla. Við þurfum að geta spjallað um allt á milli himins og jarðar. Maður er kannski með Sjálfstæðismann í bílnum klukkan 10 og Pírata klukkan 11. Ætli við séum ekki búnir að vera að vera í öllum stjórnmálaflokkum bara fyrir hádegi,“ segir Benedikt og brosir.

,,Ég hélt að ég væri sjálf míns herra þegar ég byrjaði í þessari vinnu en nú er maður með mörg þúsund verkstjóra sem segja manni fyrir verkum og hvert þeir vilja fara. Og ég verð bara að hlýða. Það er annars nóg að gera í akstrinum. Maður skynjar að samfélagið sé í góðum gír. Við leigubílstjórar erum að mörgu leyti speglar efnahagsástandsins má segja. Ef það er samdráttur eða uppgangur í samfélaginu þá finnum við leigubílstjórar einna fyrst fyrir því. Það er mikilvægt að vera með fínan bíl og hreinan. Ég hef oft líkt þessu við veiðiskap. Bíllinn er ekkert annað en spúnn. Það þarf að bíta á. Það þarf að hafa góðan og flottan spún.“

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.