*

Bílar 24. ágúst 2013

Range Rover kynnir tvinnbíl

Breski lúxusbílaframleiðandinn Land Rover hefur tileinkað sér nýja tækni.

Róbert Róbertsson

Land Rover mun koma fram með Range Rover tvinnbíl á næsta ári og verður þetta í fyrsta skipti sem breski lúxusbílaframleiðandinn innleiðir hybrid tæknina í bíla sína. Bæði er um að ræða Range Rover tvinnbíl og hins vegar Range Rover Sport tvinnbíl. Aflrásirnar í báðum þessum gerðum verða eins og samanstanda af þriggja lítra V6 dísilvél og rafmótor. Land Rover fer því sömu leið og Mercedes-Benz sem hefur nú kynnt nýjan E-Class tvinnbíl með dísilvél og rafmótor.

Í 100 á 6,9 sekúndum

Dísilvélin sem verður í Range Rover tvinnbílunum er nú þegar fyrir hendi í Range Rover Sport-bílnum. Hún er 254 hestafla en að viðbættum rafmótornum býður aflrás tvinnbílanna upp á 335 hestöfl. Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda mun bíllinn eyða aðeins 5,4 lítra á hundraðið. Koltvísýringslosunin er 169 g/km.

Að sögn framleiðandans kemst Range Rover tvinnbíllinn úr kyrrstöðu í 100 km/klst hraða á 6,9 sekúndum. Range Rover Sport tvinnbíllinn verður enn sneggri því hann kemst í hundraðið á 6,7 sek. Uppgefinn topphraði bílanna er 228 km/klst og 234 km/klst. Tvinnbílarnir geta ekið allt að 1,6 km á 50 km/klst hraða á rafmótornum einum. Range Rover í hybrid útfærslunni verður að sjálfsögðu með öllum þeim lúxus og búnaði sem aðrar gerðir þessa konungs lúxusjeppana hafa.

Stikkorð: Range Rover  • Land Rover