*

Bílar 27. júlí 2014

Range Rover selst eins og heitar lummur

Allt síðasta ár seldust 20 Range Rover jeppar þannig að það er er 75% söluaukning milli ára.

Róbert Róbertsson

Það vekur athygli að sala á lúxusbílum hefur aukist talsvert það sem af er árinu og má þar nefna að 35 Range Rover jeppar hafa selst fyrstu 6 mánuði ársins en slíkar tölur hafa ekki sést síðan fyrir bankahrunið. Í nokkur ár eftir hrun þótti ekki vænlegt að kaupa Range Rover og var það að margra áliti rangt út frá almenningsáliti að aka um á of dýrum bílum í kreppunni.

Hver man ekki eftir uppnefninu ,,Game Over“ sem þeir fengu eftir hrun. Nú þykir greinilega aftur í lagi að aka um á nýjum Range Rover samkvæmt þessum sölutölum og kannski er efnahagslegur bati í kortunum alla vega hjá þeim sem fjárfesta í þeim sem og öðrum dýrum lúxusbílunum. Allt síðasta ár seldust 20 Range Rover jeppar þannig að þetta er 75% aukning á milli ára. Samkvæmt sölutölum eru 19 Range Rover Sport meðal nýskráðra bíla á þessu ári en lúxusjeppinn kostar um 15 milljónir króna.

Þá hefur einnig verið aukin sala í Mercedes-Benz bílum fyrri hluta ársins. Sala á nýjum fólksbílum jókst um 33,9% í júní en nýskráðir fólksbílar í mánuðinum eru 1.965 á móti 1.468 í sama mánuði í fyrra sem er aukning um 497 bíla. Samtals hafa verið skráðir 6.377 fólksbílar á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 31,9% aukning frá fyrri helmingi 2013. Til samanburðar voru nýskráðir fólksbílar allt árið 2009 aðeins 2.020. Á sama tíma jókst bílasala í Evrópu, í löndum ESB og EFTA, um 4% í nýliðnum júnímánuði. Aukningin er þökkuð efnahagslegum bata í sunnanverðri Evrópu, nýjum bíltegundum og verðafslætti. Nýskráningar í júní í löndum ESB og EFTA námu 1,23 milljónum bíla en voru 1,18 milljónir í júní í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Evrópusamtökum bílgreinafyrirtækja. Nýliðinn júní var tíundi mánuðurinn í röð þar sem sala eykst.

Á fyrri helmingi ársins hefur bílasalan í Evrópu vaxið um 6% og nemur 6,85 milljónum bíla. Á dögunum eignaðist Renault-Nissan meirihlutann í rússneska bílaframleiðandanum AvtoVAZ sem framleiðir Lada bíla. Renault-Nissan á nú 67,1% ráðandi hlut í AvtoVAZ. Renault-Nissan keypti fyrst hlutabréf í AvtoVAZ árið 2008 og eignaðist þá fjórðung í fyrirtækinu fyrir 115 milljarða króna. AvtoVAZ hefur verið rekið með tapi síðustu ár og engin breyting var á því á síðasta ári. Bílasala í Rússlandi hefur dregist verulega saman í ár sem hjálpar ekki til. Búist er við 20% samdrætti nú í ár miðað við árið 2013 sem þó var ekkert sérstakt hvað varðar sölu á nýjumbílum þar í landi.

Stikkorð: Range Rover