*

Bílar 11. apríl 2021

Range Rover þá og nú

Á nýliðinni verðlaunahátíð alþjóðatímaritsins GQ var Range Rover valinn bíll ársins 2021 í sínum flokki.

Róbert Róbertsson

Í umsögn dómnefndar segir m.a. um þennan frumherja á bílamarkaðnum að hugmynd framleiðandans hefði verið að sameina í einum bíl þægindi og lúxus ásamt getu hins margrómaða Land Rover sem þekktur var fyrir torfærugetu og þau hagnýtu not sem bændur víða um heim og þjóðgarðsverðir í Afríku höfðu af Land Rover.

„Þetta hafði enginn gert áður,“ segir Charles Spencer King, yfirverkfræðingur Range Rover, sem talinn er hafa átt hvað ríkastan þátt í þróun hins upprunalega Range Rover Mk1.

Hannaður fyrir landeigendur
Bíllinn var hannaður fyrir landeigendur sem vildu aðeins meiri fágun og þægindi í sveitabílinn og sem átti að henta þeim til alhliða notkunar, hvort sem væri við bústörfin eða sem fararskjóta á leið í óperuna eða jafnvel konungleg brúðkaup.

Það kom á daginn að Range Rover Mk1 þótti svo fallegur og vel heppnaður að hann er í dag talinn dæmi um einstaka iðnhönnun enda var honum stillt upp og hafður til sýnis í Louvresafninu í París á frumsýningarárinu 1970, fyrstur farartækja sem þangað hafði komið inn.

1.970 eintök af 50 ára afmælisútgáfunni
Síðastliðið sumar var haldið opinberlega upp á 50 ára afmæli Range Rover þar sem tækifærið var nýtt til að framleiða sérstaka afmælisútgáfu í 1.970 eintökum til að heiðra Range Rover sem braut á sínum tíma blað í hönnun jeppa og gerði fólki kleift að ráðast í lúxusferðalög um erfiðar og torfærar leiðir og njóta um leið mikilla þæginda í bílferðinni.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Range  • Rover