*

Bílar 29. júní 2014

Rásfastur og þéttur langferðabíll

Volvo 9500 er langferðabíll, sem er gott að umgangast fyrir bílstjóra og farþega.

Það var nokkur eftirvænting í mínum huga að fá að aka nýjum Volvo 9500 langferðabíl, ekki síst vegna þess að það voru liðin nokkur ár síðan ég keyrði nýja rútu síðast. Það fyrsta sem maður tekureftir þegar maður sest undir stýri er hversu vel umhverfi bílstjórans er skipulagt. Aðgengi að öllum stjórntækjum er gott og áreynslulaust er að stjórna bílnum. Þar skipta máli mjög góð bakkmyndavél og góðir hliðarspeglar.

Það voru því nokkur vonbrigði að spegillinn sem sýndi aftur í rútuna var frekar slappur og sýndi aðeins fremstu farþegana. Þetta er auðvelt að laga með því að hafa spegilinn hærra og víðari en það er mjög mikilvægt að geta fylgst með því hvernig farþegum líður og hvort börn eru í beltum, ef þau eru meðal farþega.

Bíllinn er mjög þéttur í akstri þótt ekki sé hann beinlínis mjúkur. Hann er þó alls ekki hastur heldur rásfastur og þéttur mjög, stöðugur í kröppum beygju. Í bílnum er stöðugleikastýring sem maður verður ekki mikið var við þegar maður ekur bílnum en ég hef haft slæma reynslu af slíkum búnaði frá þeim tíma þegar hann var fyrst að koma í langferðabíla.

Stikkorð: Volvo