*

Matur og vín 30. desember 2019

Rauðvínin hans Steingríms

Steingrímur Sigurgeirsson bendir lesendum á góð rauðvín frá Toskana, Rioja og Bordeaux.

Steingrímur Sigurgeirsson hefur skrifað greinar um vín í 30 ár, fyrst í Morgunblaðið en síðan á vefsíðunni Vínótek, sem margir þekkja. Í vínumfjöllun Áramóta, tímarits Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, mælir Steingrímur með rauðvínum frá Toskana, Rioja og Bordeaux.

Selvapiana Chianti Rufina Riserva Bucherchiale 2015

Byrjum á Ítalíu og þá Toskana, héraði sem ég hef alltaf verið heillaður af og þá ekki einungis vegna vínanna. Það er töluvert til af flottum Toskana-vínum í vinbúðunum allt frá rótgrónari vínum á borð við Chianti og Montalcino Rufina en einnig nýrri eins og Bolgheri og svo auðvitað Súper-Toskana-vínum, þar sem hefðir eru ekki að flækjast fyrir.

Chianti-vínin eru auðvitað þekktustu vín svæðisins sögulega og það skiptist í nokkur undirsvæði þar sem Classico er það sem flestir þekkja. Rufina er hins vegar minnsta en líka eitthvert magnaðasta undirsvæði Chianti og rauðvínið Bucerchiale frá Fattoria Selvapiana er með allra bestu vínum svæðisins. Bucerchiale er nafnið á ekru sem er rúmir tólf hektarar að stærð og í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli og þegar best árar gerir Selvapiana vín úr Sangiovese-þrúgum ekrunnar sem bera nafn hennar. Nú er 2015-árgangurinn í boði og hann er frábær, þetta er vín sem hefur nánast allt það sem maður leitar eftir í frábæru Chianti-víni.

4.550 krónur.

Marques de Murrieta Reserva 2014

Á Spáni er það Rioja norðaustur af Madrid sem hefur þá stöðu að vera þekktasta hérað landsins alþjóðlega. Rioja-vínin falla vel að okkar matargerð og hafa lengi verið gífurlega vinsæl og ekki spillir fyrir að það hafa streymt stöðugt ný og spennandi Rioja-vín inn í vínbúðirnar á síðustu árum.

Nýlega bættist Marques de Murrieta í þann hóp en það er eitt af þeim vínhúsum sem setur línuna sem eins konar referenspunkt fyrir hvernig toppvín úr héraðinu eiga að vera. Reserva-vínið – sem nú er 2014 árgangurinn – kemur úr þrúgum frá Ygay-búgarðinum syðst í Rioja Alta, en þaðan kemur líka eitt allra besta vín Spánar – Ygay. Blandan er klassísk með fjórum þrúgum, meirihlutinn auðvitað Tempranillo en líka heil 9% af Graciano. Afspyrnugott vín með nautasteikinni, lambinu og öndinni.

3.699 krónur.

Chateau Trianon Saint-Emilion Grand Cru 2015

Þegar kemur að Frakklandi er eiginlega ekki hægt að horfa bara til eins héraðs, en ef það er eitt þá er það í mínum huga Bordeaux, þar sem mörg af allra bestu vínum veraldar eru framleidd.

Eitt þeirra sem nýlega bættist við í flóruna hér er Chateau Trianon, vín sem er full ástæða til að gefa gaum. Það er nefnilega þannig að þótt Trianon sé ekki með þekktari vínum Bordeaux sem stendur þá er þetta vín sem vafalítið á eftir að láta töluvert að sér kveða. Maðurinn á bak við Trianon er nefnilega enginn annar en Dominique Hebrard en Hebrard-fjölskyldan átti og rak um langt skeið eitt þekktasta vínhús veraldar, Chateau Cheval-Blanc í Saint-Emilion. Í kjölfar þess að fjölskyldan seldi Cheval Blanc ákvað Hebrard að hefja leikinn á ný og hefur komið að nokkrum spennandi vínhúsum á síðustu árum. Trianon er magnað vín fyrir peninginn sem getur keppt við töluvert dýrari vín af svæðinu. 2015 var auðvitað einstaklega góður árgangur og það skín hér í gegn.

Þetta er hægribakkavín og það er því Merlot sem ræður ferðinni en ekki Cabernet Sauvignon, mjög aðgengilegt nú þegar en mun endast í allnokkur ár til viðbótar.

5.416 krónur.

Fjallað er um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Þá munu áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.