*

Tíska og hönnun 23. mars 2017

Raus Reykjavík hannar í samvinnu við Bláa Lónið

Raus Reykjavík hefur hannað og sett á markað skartgripalínu í samvinnu við Bláa Lónið. Línan sem er innblásin af Bláa Lóninu og náttúrulegu umhverfi þess inniheldur hálsmen, hringa, eyrnalokka og armbönd, sem unnin eru úr silfri, gulli og hvítagulli.

Kolbrún P. Helgadóttir

Línan, sem ber heitið EINN / ONE er unnin út frá smásjármyndum af kísil Bláa Lónsins sem er þekktur fyrir fegrandi áhrif á húðina. „ Við köfum því inn í innsta kjarna fegurðarinnar, setjum kísilinn í eðalmálm og berum hann utan á okkur sem áminningu um að fegurðin kemur innanfrá,“ segir Auður Hinriksdóttir, skartgripahönnuður, gullsmíðanemi og einn af stofnendum Raus Reykjavík.“ 

Raus Reykjavík er gullsmíðaverkstæði sem stofnað var á haustmánuðum 2016 af þeim Auði Hinriksdóttur, Hörpu Kristjánsdóttur, Rut Ragnarsdóttur og Svönu Berglindi Karlsdóttur. 

Raus er vísun í upphafsstafi í nöfnum Rutar, Auðar og Svönu. Þær hófu samstarfið og Harpa gekk til liðs við þær á síðari stigum.  Þær eru gullsmiðir og skartgripahönnuðir.  Fyrir utan gullsmíðina er bakgrunnur þeirra ólíkur og hver og ein tekur mið af sínum reynsluheim í hönnuninni. Innblástur þeirra er meðal annars náttúran, sagan, myndlist, og arkitektúr.  

Í lógói fyrirtækisins er au-ið í Raus breiðara en hinir stafirnir, en það kemur til af því að tákn gulls í lotukerfinu er au. 

Raus Reykjavík er þátttakandi í Hönnunarmars 2017 og verður með sýningu á línunni EINN/ONE í verslun Bláa Lónsins að Laugavegi 15, dagana 23. - 26. mars.