*

Matur og vín 28. ágúst 2019

Rautt Búrgúndí slær hlutabréfum við

Rauð eðalvín frá vínekrum Búrgúndí hefur skilað fjárfestum góðri ávöxtun það sem af er öldinni.

Fjárfestar í rauðu eðalvínum frá Búrgúndí geta hvað ávöxtun varðar vel við unað, það er að segja hafi þeir hafi ekki drukkið vínið nú þegar. Flaska af búrgúndísku eðalrauðvíni sem keypt var árið 2003 hafði á síðasta ári hækkað um nær 500% í verði. Þetta kemur fram í úttekt tímaritsins Economist sem bendir á að S&P 500 vísitalan hafi hækkað um 279% yfir sama tímabil. 

Vín frá Búrgúndí bera höfuð og herðar yfir önnur frönsk víngerðarhéruð. Eðalvín frá Bordeaux og Champagne hækkuðu um 214% á tímabilinu 2003-18 og vín frá öðrum svæðum hækkuðu minna.

Ástæðan fyrir velgengni Brúgúndí má að mati Economist rekja til sérstöðu þess og lítils framboðs. Sérstaðan felst meðal annars í því rauðvín í Búrgúndí eru gerð úr Pinot Noir þrúgu sem búi yfir sérstökum og oft óútreiknanlegum eiginleikum hvað öldrun varðar. Eftir að því hefur verið tappað á tunnur eigi það til að missa bragðeiginleika að nokkrum árum liðnum. Geyma þurfi vínið í að minnsta kosti áratug þar til bragðið vaknar til lífsins á ný.

Lítið framboð stafi af því að vínhéruð Búrgúndí er skipt upp í hundruð lítilla vínekrusvæða, sem hver hafi sín sérkenni (t.d. jarðveg og stöðu til sólar). Á hverju svæði er framleitt sérstakt vín sem þýði að aðeins nokkur hundruð flöskur fara í hæsta gæðaflokk í hverri tegund. Það kostar því mikla vinnu og yfirlegu að öðlast góða þekkingu á Búrgúndí vínum og af þeim sökum er kunnátta um Búrgúndí vín ákveðinn mælikvarði á þekkingarstig vínáhugamanna. 

Þrátt fyrir stöðuga og mikla ávöxtun mælir Economist þó ekki með fjárfestingunni. Þar sem flaskan kosti um 3.000 dollara hver, jafngildi 375.000 íslenskra króna, sé verðmyndunin háð geðþótta og smekk afar fámenns hóps kaupenda. Þótt besta vínið í eignaflokkinum haldi áfram að hækka í framtíðinni sé næsta víst að bestu hlutabréfin komi til með að hækka meira. Þannig hafi bréf í lúxussamstæðunni LVMH, sem eigi m.a. töluvert af vínekrum í Búrgúndí, nær tífaldast í verð síðan 2003. Besta leiðin til þess að græða peninga í Búrgúndí sé því líklega að framleiða vín frekar en að kaupa það.