*

Sport & peningar 24. september 2011

Real Madrid eykur tekjur sínar

Real Madrid er stærsta knattspyrnufélag í heimi, miðað við tekjur.

Konunglega stórveldið á Spáni, Real Madrid, setti nýtt met í fyrra í öflun tekna. Um þetta var tilkynnt á mánudaginn á opinberri vefsíðu Real Madrid. Endurskoðað uppgjör fyrir tímabilið 2010 til 2011 leiddi í ljós að tekjur jukust úr ríflega 442 milljónum evra frá því á tímabilinu á undan í 480,2 milljónir evra tímabilið á eftir. Þetta jafngildir um 80 milljörðum króna í heildartekjur. Ekkert knattspyrnufélag í heiminum er með meiri tekjur en Real Madrid. Á eftir Real koma ensku meistararnir í Manchester United með um 334,1 milljónir evra í tekjur. Hagnaður Real Madrid jókst um 31,7% milli ára og nam 31,6 milljónum evra.

Þrjár stoðir Samkvæmt tilkynningu frá Real Madrid eru það fyrst og fremst þrjár stoðir sem tryggja félaginu tekjur. Það er miðasala á heimavellinum, Santiago Bernebeau, sjónvarpstekjur og síðan sala á varningi sem tengdur er félaginu. Tekjur af miðasölu hafa aukist mikið undanfarin ár. Miðafjöldi sem seldur er hefur verið svipaður milli ára en verð á miðunum hefur hækkað mikið, eða um allt að 35% á fjórum árum.

Mesti vöxturinn er hins vegar í sölu á varningi. Þar hefur sala félagsins á búningum sem merktir eru Portúgalanum Cristiano Ronaldo skipt sköpum. Hann var keyptur á 80 milljónir punda, jafnvirði tæplega 15 milljarða króna, frá Manchester United. Í fyrra gaf félagið það út að kaupin á Ronaldo hefðu þegar borgað sig með sölu á Real Madrid treyjum. Það sýnir kannski best hversu mikla þýðingu það hefur fyrir félag eins og Real Madrid að vera með stórstjörnur hjá félaginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.