*

Sport & peningar 10. ágúst 2021

Real Madrid í mál við eigin deild

Höfða mál gegn La Liga og CVC Capital Partners til þess að freista þess að stöðva sölu á 10% hlut í deildinni.

Spænska knattspyrnustórveldið Real Madrid hyggst leggja fram kæra á hendur Javier Tebas, forseta La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, og Javier de Jaime Guijarro, forstjóra fjárfestingafélagsins CVC Capital Partners, vegna 2,7 milljarða evra sölu La Liga á 10% hlut í deildinni til fjárfestingafélagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu sem Reuters greinir frá.

Aðildarfélög La Liga eiga þó enn eftir að samþykkja söluna en með málaferlunum freistar Real Madrid þess að koma í veg fyrir að það einu sinni komi til þess að kosið verði um samninginn meðal félaganna.

Sjá einnig: Vogunarsjóður fjárfestir í La Liga

Er greint var frá sölunni í síðustu viku sögðu forsvarsmenn La Liga að samningurinn, sem kallast „Boost La Liga“ myndi styrkja félögin í deildinni með því að afla þeim fjármuna til að eyða í nýja innviði og að nútímavæðast, ásamt því að gera þeim kleift að stækka launaskrá sína. 

Risarnir á Spáni, Real Madrid og Barcelona, hafa þó lýst sig mótfallna sölunni þar sem að samningurinn tryggir CVC 10% af framtíðarsjónvarpstekjum La Liga. Í dag renna umræddar tekjur að stórum hluta í vasa þessara félaga, þar sem þau fá langmest áhorf. Þessa tekjuskerðingu geta þau því ómögulega sætt sig við.

Tebas hefur svarað yfirlýsingu Real Madrid á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem hann gagnrýnir forseta Madrídinga, Florentino Perez, fyrir að beita hótunum til að fá sínu framgengt. Þá hefur CVC hafnað málatilbúnaði Real Madrid og segist fjárfestingafélagið áskilja sér rétt til að grípa til varna.

Stikkorð: Barcelona  • Real Madrid  • CVC Capital Partners  • La Liga