*

Sport & peningar 24. janúar 2019

Real Madrid tekjuhæsta knattspyrnuliðið

Tekjur félagsins á síðasta leiktímabili námu 750,9 milljónum evra. Manchester United dettur niður í 3. sæti listans.

Sveinn Ólafur Melsted

Spænska knattspyrnuliðið Real Madrid hefur átt erfitt tímabil hingað til. Árangurinn heima fyrir hefur þótt óásættanlegur og þegar er búið að reka knattspyrnustjórann sem hóf tímabilið, Julen Lopetegui. Argentínumaðurinn Santiago Solari tók við stjórntaumunum í hans stað, en spilamennska liðsins hefur lítið batnað undir hans stjórn.

Utan vallar leikur lífið þó við spænska risann, en samkvæmt lista sem Deloitte tekur saman er félagið það ríkasta í heimi, en tekjur félagsins á síðustu leiktíð námu 750,9 milljónum evra. 

Klifra upp fyrir Manchester United

Real Madrid fer þar með upp fyrir Manchester United sem skipaði toppsæti listans í fyrra. Manchester United fellur niður í þriðja sæti listans en hinn spænski risinn, Barcelona, klifrar upp í annað sætið. Þetta er í fyrsta sinn sem spænsku risarnir tróna í tveimur eftu sætum listans síðan leiktímabilið 2014-2015.

Listi Deloitte byggir á tekjum knattspyrnuliða á síðasta leiktímabili, tímabilið 2017-2018. Tekjur efstu 20 liðanna numu samtals 8,3 milljörðum evra og hafa þær aldrei verið hærri, en þær jukust um 6% á milli ára.

Brottför Ronaldo gæti bitnað á tekjunum

Real Madrid vann Meistaradeild Evrópu í þriðja skiptið í röð á síðasta tímabili og hafði það eðlilega góð áhrif á tekjustreymi félagsins. Síðastliðið sumar seldi félagið hins vegar sína skærustu stjörnu, Cristiano Ronaldo til Ítalíumeistaranna Juventus og má gera ráð fyrir að það dragi úr tekjum félagsins. Slakur árangur liðsins innan vallar á núverandi tímabili gæti einnig bitnað á tekjunum.

Ensku liðin áberandi

Á meðal tíu efstu liða listans má finna sex lið úr ensku Úrvalsdeildinni; Manchester United, Manchester City, Liverpool, Chelsea, Arsenal og Tottenham. Á meðal 20 efstu liðanna má svo finna þrjú ensk lið í viðbót; Everton, Newcastle United og West Ham. Því er nánast helmingur liða á listanum frá Englandi, en enska Úrvalsdeildin nýtur gífurlegra vinsælda um allan heim og fá Úrvalsdeildarliðin miklar tekjur af sjónvarpsréttarsamningum.

Hægt er að nálgast lista Deloitte ásamt fleiri skemmtilegum upplýsingum á vef Deloitte.