*

Sport & peningar 24. júní 2012

Reebok treystir á CrossFit vörur til að auka sölu

Vonast til þess að auka sölu á næstu árum og þar eru CrossFit vörurnar sterkasta vopnið segir forstjóri móðurfélagsins.

Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Reebok kynnti í vikunni langtímaáætlun félagsins en þar er gert ráð fyrir aukinni sölu á vörum tengdum CrossFit íþróttinni. Það kemur tæplega á óvart þar sem Reebok hefur síðustu ár einblínt mikið á CrossFit og er nú helsti stuðningsaðili heimsmeistarakeppninnar í CrossFit. 

Hin íslenska Annie Mist Þórisdóttir er sem kunnugt er heimsmeistari í CrossFit í flokki kvenna og mun verja titil sinn seinna í sumar.

Áætlun Reebok gengur út á það að auka tekjur félagsins um 3 milljarða evra fram til ársins 2015. Reebok hefur orðið að nokkrum tekjum eftir ef að félagið missti samning sinn við NFL deildina í Bandaríkjunum til Nike og tekjur félagsins drógust saman um 7% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, eftir að hafa dregist saman um 8% á milli ára í fyrra. 

Reebok er í eigu þýska íþróttavöruframleiðandans Adidas, sem á eftir Nike er næststærsti íþróttavöruframleiðandi heims. 

Herbert Hainer, forstjóri Adidas, sagði við blaðamenn í fundi í Varsjá í Póllandi í gær að aukin sala á vörum tengdum CrossFit íþróttinni væri helsta vopn félagsins. Hingað til hefur mesta aukningin verið í kvenmannshlaupaskóm (sem þekktir eru undir línunni Easytone) en Hainer lagði áherslu á að Reebok ætlaði sér ekki eingöngu að vera leiðandi í sölu á vörum til kvenna. 

Fundinn var haldinn í Varsjá þar sem EM í knattspyrnu fer nú fram í Póllandi og Úkraínu. Á fundinum sagði Hainer að gera mætti ráð fyrir að knattspyrnuvörur frá Adidas myndu seljast vel í ár, og tók sérstaklega fram að þær væru að seljast vel í löndum sem hafa gengið í gegnum mikla efnahagserfiðleika, s.s. í Grikklandi og á Spáni. 

Stikkorð: Reebok  • CrossFit