*

Veiði 25. nóvember 2012

Refastofninn hefur margfaldast að stærð

Veiðimenn telja að mikil fjölgun í refastofninum hafi slæm áhrif á fuglastofna og ráði miklu um dræmar veiðar.

Rjúpnaveiðin hefur verið dræm það sem af er veiðitímabilinu. Að hluta til er veðri um að kenna, en erfitt hefur verið að ganga á rjúpu á Norðurlandi vegna veðurs. Veiðimenn vilja hins vegar margir meina að mikil fjölgun í refastofninum hafi áhrif á rjúpuna.

Arne Sólmundsson, varaformaður Skotveiðifélags Íslands, segir veiðina hafa verið jafnlélega yfir landið. „Það hefur ekkert staðið upp úr fyrir utan það að menn hafa illa komist á rjúpu fyrir norðan. Aflatölur eru nokkuð vel dreifðar yfir landið, en allar jafnlélegar. Það eru mjög fáir veiðimenn að skjóta margar rjúpur.“

Hvað varðar áhrif refsins á rjúpuna segist Arne sjálfur hafa orðið meira var við refinn núna en fyrir nokkrum árum. „Ég geng sjálfur til rjúpna og mér sýnist það alveg augljóst að ref hefur fjölgað ár frá ári. Maður gengur oftar yfir refaslóðir. Í haust hefur það oftar en ekki verið þannig að þegar ég finn rjúpnaslóð þá er slóð eftir ref sem fylgir henni. Ástandið er að mínu mati að versna, en það er fræðinganna að fá þetta staðfest.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Rjúpnaveiði  • Refur