*

Veiði 12. ágúst 2018

Regnbogi í Elliðaám

Regnbogasilungur veiddist á Breiðunni í Elliðaánum fyrir skömmu — fiskurinn var drepinn en minkur rann á lyktina og tók hann.

Trausti Hafliðason

Lítill regnbogasilungur, líklega 25 til 30 sentímetra langur, veiddist á Breiðunni í Elliðaánum fyrir rúmri viku. Þegar veiðimaðurinn sá að þetta var regnbogasilungur drap hann fiskinn og hugðist hann koma honum til veiðivarða svo hægt væri að taka úr honum sýni. Lagði veiðimaðurinn fiskinn á bakkann um stund og hélt áfram að veiða. Þegar hann hugðist sækja fiskinn var hann horfinn, líklega hefur minkur runnið á lyktina. Veiðimaðurinn náði þó mynd af fiskinum og fylgir hún þessari frétt.

Hafrannsóknarstofnun hefur fengið myndina og staðfest að fiskurinn sé regnbogasilungur. Sérfræðingur stofnunarinnar telur ljóst að fiskurinn hafi sloppið úr eldiskví en hins vegar sé ómögulegt að segja hvaðan hann sé upprunninn. Til þess að það hefði verið hægt hefði þurft að ná sýni. Regnbogasilungur er ekki náttúrulegur stofn hér á landi og engar upplýsingar eru um að þeir sem hafi sloppið hafi náð að fjölga sér í íslenskum ám.