*

Tölvur & tækni 23. júlí 2013

Rekstur Netflix stóðst ekki væntingar fjárfesta

Gott rekstraruppgjör tryggir ekki stöðugt hlutabréfaverð

Tekjur Netflix sjónvarpsveitunnar jukust á síðasta ársfjórðungi og áskrifendum fjölgaði. Hlutabréfaverð lækkaði hins vegar í gær. 

Tekjur á öðrum ársfjórðungi numu 1.069 milljónum bandaríkjadala. Hagnaðurinn var 29 milljónir dala sem er aukning um 23 milljónir dala á milli ársfjórðunga. Fjárfestar áttu aftur á móti von á því að tekjurnar myndu nema 1072 milljónum, eftir því sem fram kemur á vef USA Today. 

Áskrifendum Netflix í Bandaríkjunum fjölgaði úr 29,2 milljónum í 30 milljónir.  Áskrifendur um allan heim eru nú 36,3 milljónir. 

Þrátt fyrir þessar fínu rekstrartölur lækkaði hlutabréfaverð í Netflix um 2,6% við opnun markaða í gær og verðið hélt áfram að lækka.