*

Bílar 5. nóvember 2016

Renault Talisman fékk Stálstýrið

Það kom mörgum á óvart að Renault Talisman skyldi verða fyrir valinu sem Bíll ársins.

Renault Talisman var á dögunum kosinn Bíll ársins 2017 af Bandalagi íslenska bílablaðamanna. Í öðru sæti varð Audi Q7 ETronic jeppinn og í því þriðja varð annar jeppi, BMW X5 í Plug-in Hybrid útfærslu.

Talisman fær því Stálstýrið sem er verðlaunagripurinn fyrir þann bíl sem fær þessa stærstu viðurkenningu í bílageiranum á Íslandi ár hvert.

Það kom mörgum á óvart að Renault Talisman skyldi verða fyrir valinu sem Bíll ársins því það er ekki oft sem bíll í langbaksútgáfu fær svona stóra viðurkenningu.

Sannleikurinn er hins vegar að þessi bíll kemur mjög á óvart fyrir margt og heillaði íslenska bílablaðamenn upp úr skónum hvort sem ekið var í venjulegum akstri innan borgarmarkanna, úti á þjóðvegum og síðast en ekki síst á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Þar var tekið vel á bílnum eins og raunar öllum bílunum sem komust í úrslit í fólksbíla- og jeppaflokkum í Bíl ársins.

Renault Talisman skoraði mjög hátt í öllum flokkum í valinu á Bíl ársins og stóð að lokum uppi sem sigurvegari með flest atkvæði allra bílanna sem í úrslitum voru.

Nánar er fjallað um bílinn í blaðinu Bílar, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér

Stikkorð: Bíll ársins  • Renault  • Talisman