*

Bílar 1. apríl 2017

Rétti tíminn að koma til Íslands

Marco Santucci, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Jaguar Land Rover, segir rétta tíminn fyrir Jaguar að koma til Íslands.

Róbert Róbertsson

Marco Santucci er framkvæmdastjóri Evrópudeildar Jaguar Land Rover. Þessi geðþekki 48 ára gamli Ítali er fæddur og uppalinn í Flórens en flutti síðar til Rómar. Hann er mikill unnandi bíla og fótbolta og dyggur stuðningsmaður AC Roma í ítalska fótboltanum. Marco kom til Íslands á dögunum þegar BL hélt  veglega frumsýningu á Jaguar bílum í Listasafni Reykjavíkur. Ég settist niður með Marco og fór yfir það helsta sem snýr að Jaguar og komu þessa fræga breska bílamerkis á íslenskan markað.

,,Þetta er að mínu mati rétti tíminn fyrir Jaguar að koma til Íslands. Fyrirtækið er nýbúið að setja á markað nýjan F-Pace sportjeppa sem hentar vel fyrir íslenskar aðstæður. Sama má segja um XE og XF fólksbílanna sem eru báðir fjórhjóladrifnir. Við erum líka spenntir fyrir hinum nýja I-Pace sem verður hreinn rafbíll og ég sé fyrir mér að sá bíll eigi eftir að verða vinsæll í Íslandi í framtíðinni. I-Pace hefur drægni upp á 500 km. sem gerir hann mjög samkeppnishæfan í rafbílaflokknum. Bíllinn var frumsýndir á bílasýningunni í Genf og við búmst við að hann komi á markað um mitt næsta ár,” segir Marco, sem hefur rúmlega 20 ára reynslu af bílaiðnaðinum. Hann hóf störf í greininni árið 1994 sem svæðisstjóri hjá Ford á Ítalíu en hefur síðan þróast hratt innan atvinnugreinarinnar á Evrópumarkaði. Hann tók við sem vörumerkjastjóri hjá Jaguar Land Rover í Róm árið 2010 og stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs fyrirtækisins þar í landi árið 2015. 

Ekki að eltast við BMW eða Mercedes-Benz

,,Við viljum að viðskiptavinir okkar finni fyrir einstökum áhrifum þegar þeir setjast inn í og keyra Jaguar. Við erum ekki að eltast við að verða BMW eða Mercedes-Benz. Við vitum að við náum ekki þýsku lúxusbílaframleiðendunum í sölutölum. En við viljum geta boðið upp sérstöðu og teljum okkur vera með einstaka vöru, mjög vel hannaða og afar góða bíla,” segir hann. 

Aðspurður um áreiðanleika Jaguar bílanna svarar hann: ,,Í gamla daga voru Jaguar bílar ekki alltaf með bestu gæðin þótt þeir væru mjög flottir. En það er löngu liðin tíð. Jaguar Land Rover hefur lagt mikla vinnu í að efla áreiðanleika bíla fyrirtækisins og það hefur skilað okkur góðum árangri. Nú erum við með áreiðanlega og trausta bíla en að sjálfsögðu áfram fallega,” segir hann brosandi.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-forminu með því að smella hlekkinn Tölublöð.