*

Menning & listir 6. október 2013

Réttur listdómur

Listamaðurinn Leifur Breiðfjörð ætlar fá úr því skorið hvort bronshurð hans fyrir Hallgrímskirkju sé listaverk eða smíðavara í skilningi tollalaga. Mál hans á sér tvö áhugaverð erlend fordæmi.

Eins og fram kom í nýlegri frétt Viðskiptablaðsins hefur listamaðurinn Leifur Breiðfjörð óskað eftir að fá úr því skorið hvort bronshurðir eftir hann sem voru settar upp í Hallgrímskirkju séu listaverk eða smíðavörur í skilningi tollalaga. Þótt þetta mál virðist vera einsdæmi á Íslandi, þá eru fordæmi þess nokkuð mörg utan úr heimi. Það sem er einna áhugaverðast við mál af þessu tagi er að þau varpa upp spurningu sem heimspekingar og fræðimenn hafa glímt við í mörg hundruð ár: Hvað má að sönnu kalla list?

Árið 1923 gerði móderníski myndhöggvarinn Constantin Brancusi eina sína frægustu höggmynd, Bird in Space, og fjórum árum síðar hugðist hann flytja hana inn til Bandaríkjanna. Samkvæmt bandarískum tollalögum eru upprunaleg listaverk tollfrjáls en þegar bronsmynd Brancusi kom til landsins var lagður á hana 40% innflutningstollur, rétt eins og um væri að ræða hverja aðra smíðavöru. Ástæðan var sú að höggmyndin líktist ekki neinu úr hinum náttúrulega heimi, og þótt titillinn vísaði til þess að hún væri af fugli þá sáu tollverðirnir bandarísku engan fugl úr henni.

Næstum því 80 árum síðar hugðist breska galleríið Haunch of Venison flytja inn til Bretlands nokkur verk eftir tvo heimsþekkta bandaríska listamenn, Bill Viola og Dan Flavin. 

Viola er þekktur fyrir framsæknar myndbandsinnsetningar sínar en Flavin á frægð sína að þakka ljósskúlptúrum úr hefðbundnum flúrljósum. Þegar verk þeirra voru komin í breska höfn voru þau skilgreind af tollayfirvöldum sem myndvarpar í tilviki Viola og ljósabúnaður í tilviki Flavins.Rökstuðningur tollayfirvalda var sá að þótt tilgangur alls þessa búnaðar væri first og fremst listrænn, þá yrði hann ekki að listaverki fyrr en hann yrði settur saman og sýndur í sýningarrými.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.