*

Sport & peningar 31. desember 2015

Reyna að nýta styrkleika hvors annars

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara landsliðs Íslands í knattspyrnu, segist hafa lært mikið af Lars Lagerbäck.

Trausti Hafliðason

Landsliðið hefur náð frábærum árangri undir stjórn þeirra Lars Lagerbäck og Heimis Hallgrímssonar undanfarin ár. Liðið komst í umspil um sæti í lokakeppni HM í Brasilíu árið 2014 en tapaði fyrir Króötum. Liðið sannaði að árangurinn í undankeppni HM var engin heppni því nú er ljóst að Ísland mun í fyrsta skiptið spila á lokamóti EM, sem haldið verður í Frakklandi næsta sumar. Er þetta í fyrsta skiptið sem íslenska karlalandsliðið kemst í lokakeppni stórmóts.

Athyglin hefur mikið verið á Lars Lagerbäck og margir eignað honum þann árangur sem náðst hefur. Spurður hvort það fari eitthvað fyrir brjóstið á honum svarar Heimir: „Nei, það hefur ekki farið í taugarnar á mér persónulega. Fólkið sem er í kringum mig og veit hvað ég hef lagt mikið á mig hefur samt stundum tekið það nærri sér ef ég er ekki nefndur á nafn. Fyrir mér er þetta ekki keppni um athygli og Lars hefur aldrei látið mér líða þannig. Hann lagði strax áherslu á að við tækjum allar ákvarð­anirnar saman fyrstu tvö árin þrátt fyrir að ég væri aðstoðarþjálfari. Það er fyrst og fremst heiður að vera hluti af þessum hópi. Þetta eru magnaðir leikmenn og miklir karakterar en ekki síst er frábært starfslið í kringum liðið sem á stóran þátt í þessari velgengni.“

Módelið hans Lars

„Verkaskiptingin á milli okkar Lars er nokkuð skýr. Við reynum að nýta styrkleika hvor annars. Þegar hann kom til landsins var hann með mjög ákveðnar hugmyndir og studdist við módel sem hafði skilað Svíum í lokakeppni stórmóts. Í grófum dráttum þá snýst módelið um það hvernig lítil þjóð getur náð árangri í fótbolta. Ákveðnar vinnureglur eru bæði utan vallar sem innan. Sem dæmi þá þarf lítil þjóð, sem er oftast minna með boltann en andstæðingurinn, að vera með varnarleikinn alveg á hreinu. Þetta hljómar kannski einfalt en er það ekki.“

Nánar er rætt við Heimi í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.