*

Bílar 18. október 2015

Reynsluakstur á Mercedes-Benz bifreið forsætisráðherrra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fær nýjan ráðherrabíl til afnot innan skamms.

Um síðustu helgi sagði Viðskiptablaðið frá því fyrst fjölmiðla að forsætisráðuneytið hefði fest kaup á Mercedes-Benz S-Class, S350. Samkvæmt upplýsingum blaðsins kostar bíllinn 12.785.000 krónur, en það er lágt verð fyrir bíl af þessari gerð.

Samkvæmt verðlista Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi, kostar slíkur bíll frá 18 milljónum. Ætla má að sá bíll sem forsætisráðherra fær til umráða kosti nokkrum milljónum meira vegna aukabúnaðar ef litið er til listaverðs.

Lúxusbílaframleiðendur eins og Mercedes-Benz veita verulega afslætti til ríkisstjórna og þjóðhöfðingja og skýrir það lágt verð bílsins.

Af þessum tæpu 12,8 milljónum sem bíllinn kostar fara um 35% aftur í ríkiskassann í formi vörugjalds (25%) og virðisaukaskatts (24%). Því er kostnaðverð bílsins um 8,4 milljónir fyrir ríkissjóð.

Kemur í fjórum stærðum

S-Class er í boði í fjórum lengdum frá framleiðandanum. Venjulega útgáfan er 5.116 mm á lengd en lengri útgáfan er 130 cm lengri, eða 5.246 mm. Í Maybach útgáfunni er hann 5.453 mm á lengd, eða 35 cm lengri en hefðbunda útgáfan og Maybach Pullmann er 6.499 mm en sá bíll er búinn fjórum sætum í farþegarými.

Líklegt er að forsætisráðherra fái lengri gerðina af hefðbunda bílnum, sem er með meira fótapláss fyrir farþega bílsins, líkt og BMW 7 sem var áður í þjónustu forsætisráðuneytsins en hefur nú verið seldur.

Bílablaðamenn Viðskiptablaðsins hafa nokkrum sinnum fengið tækifæri til að reynsluaka S-Class við ólíkar aðstæður, bæði hér á landi og í Þýskalandi, og vera farþegar í bílnum. Hér kemur stutt samantekt á upplifun okkar á bílnum en bíllinn sem er prófaður er af sömu gerð og með sömu vél og sá sem forsætisráðuneytið hefur fest kaup á.

Hér er einnig umfjöllun um bílinn á léttari nótunum í VB sjónvarpi

Reynsluaksturinn

Það er sérstök tilfinning að að setjast upp í Mercedes-Benz S-Class. Hann sportlegri en forverinn en heldur samt því tignarlegu útliti sem hefur einkennt þetta flaggskip lúxusbílaframleiðandans í Stuttgart alla tíð.

Bíllinn sem er prófaður er af gerðinni S 350 d. Hann er með 3 lítra V6 díselvél sem skilar 282 hestöflum og kemur með sjö þrepa sjálfskiptingu.

Meðal útbúnaðar í bílnum eru 26 skynjarar allan hringinn á bílnum sem senda boð til þriggja tölva. Þegar bakkað er út úr stæðinu má sjá bíllinn á nokkuð hefðbundinni bakkmyndavél með þeirri viðbót að maður sér nákvæmlega hvert bíllinn stefnir þegar lagt er á stýrið.

Að auki sést mynd af bílnum, líkt og þyrla sé flögrandi um fyrir ofan með myndavél. Þetta er sérstaklega þægilegt þegar ekið er nálægt gangstéttarköntum og öðru sem skemmt getur felgur og hliðar bílsins.

Hljóðlátur og rásfastur

Það finnst á fyrstu eknu metrunum hversu þéttur og vel smíðaður bíllinn er. Díselvélin er feykinógu öflug fyrir íslenskar aðstæður. Við höfum einnig prófað bílinn í öðrum útgáfum, S500 útgáfuna sem er 454 hestöfl, S500 hybrid (sem hægt er að hlaða) með 436 hestafla vél og fengið far í S-Class Maybach sem er 530 hestöfl. Því fleiri hestöfl, því skemmtilegri er aksturinn en í grunninn er bílarnir allir eins, bara mismundandi langir og kraftmiklir.

Veghljóðið er nánast ekkert þrátt fyrir að vetrardekkin séu undir. Vélarhljóðið sömuleiðis lítið sem ekkert þrátt fyrir að bíllinn sé búinn díselvél. Það munar miklu um vélarhljóðið, hvort vélin er fjögurra sílenda eða sex, en 350 vélin er af síðarnefndu stærðinni og er vel heppnuð og hljóðlát.

Helsta aðalsmerki þýskra lúxusbíla er rásfestan og ekkert vantar um upp á hana í S-Class. Þótt að bíllinn sé stór þá er maður fljótur að átta sig á útlínum hans við aksturinn.

Þrátt fyrir að helsti stjórnbúnaður og mælaborð hafi verið hannað frá grunni er maður fljótur að átta sig hafi maður á annað borð sest upp í Mercedes-Benz áður. Allt farþegarýmið er smekklega hannað og frágangur eins og best verður. Plássið fyrir farþega í aftursæti er sérstaklega gott enda hafa stjórnendur Daimler sagt að bíllinn er hannaður með kínverska forstjóra í huga sem hafa bílstjóra en ekki þýskar hraðbrautir, eins og allir S-Class bílar á undan. Í lengri gerðinni er 13 cm meira pláss fyrir farþega í aftursæt.

Mikill útbúnaður í boði

Bíllinn er vel búinn en meðal þess er í honum viðvörun um að bíllinn sé kominn út af akreininni og fjarlægðarskynjari á næsta bíl á undan. Einnig er sérstakur árekstararvari í bílnum sem lætur ökumanns bílsins sem á eftir kemur vita ef hann nálgast of hratt. Þetta er auðvitað sérstaklega gagnlegt þar sem umferð verður skyndilega hæg en er venjulega hröð, eins á hraðbrautum, eða þegar ekið er í þéttri umferð. Bíllinn getur bíllinn lesið umferðarskilti og varar mann við ef of hratt er farið. 

Það er hins vegar mikið af aukabúnaði í boði til viðbótar. Með honum öllum er bíllinn einn tæknivæddasti fjöldaframleiddi fólksbíllinn sem til er. Hægt er að fá búnað þar sem bíllinn hemlar sjálfkrafa þegar skynjararnir nema gangandi vegfarendur eða bíla.

Í S500 útgáfunni er hægt að fá búnað sem les yfirborð vegarins og stillir fjöðrunarkerfið í samræmi við það. Bíllinn svífur því yfir hraðahindranir og mishæðir á veginum.

Getur ekið sjálfur

Með öllum þessum aukabúnaði getur bíllinn ekið sjálfur. Eina sem þarf að gera er að skrá nákvæmlega allt umhverfið á leiðinni því GPS tæki eru ekki nægilega nákvæm. Það gerðu tæknimenn Daimler á hundrað kílómetra kaflanum frá Mannheim til Pforzheim. Það er einmitt leiðin sem Bertha Benz ók þegar hún tók bílinn án vitnesku eiginmanns síns,  Karl Benz, árið 1886. Ökutækið var fyrsti bíllinn, Benz Patent Motorwagen, og hafði honum aldrei verið ekið nema stuttar vegalengdir.

Íslenskum vegum er misjafnlega vel viðhaldið. Hvítar línur slitna fljótt, en ef þær eru daufar á bíllinn erfitt með að nema þær. Við höfum prófað að láta S-Class aka alveg sjálfan í gegnum Hvalfjarðargöngin, þar sem leiðin er nokkuð bein og  veglínurnar skýrar. Hraðinn var stilltur á 70 km á klukkustund og bilið í næsta bíl ákveðið 60 metrar. Bíllinn beygir sjálfur, bremsar sjálfur og eykur hraðann sjálfur. Það var ekki fyrr en á hringtorginu við Akranesafleggjarann að mannshöndin tók aftur yfir stjórnina.

Mercedes-Benz S-Class hefur verið langmest seldi lúxusbíllinn í sínum stærðarflokki síðustu árin. Það kemur engum á óvart sem hefur prófað slíkan grip.

 

Á þessum tveimur myndum sést ágætlega munurinn á hefðbundnum S-Class og lengdum. Að ofan er hefðbundinn, að neðan er lengdur.

Aðbúnaðurinn fyrir bílstjórann er ekki síðri.

 

Stikkorð: Mercedes-Benz  • S-Class  • Ráðherrabíll