*

Veiði 13. febrúar 2016

Rífandi gangur í veiðileyfasölu

Veiðileyfasalar eru sammála um að sala veiðileyfa hafi sjaldan verið jafn góð og í vetur en uppselt er í fjölmargar laxveiðiár

Trausti Hafliðason

Laxveiðin síðasta sumar var ævintýralega góð og skipar veiðiárið 2015 sér á bekk með allra bestu veiðiárum sögunnar. Samkvæmt bráðabirgðatölum Veiðimálastofnunar veiddust 74 þúsund laxar á síðasta ári sem þýðir að frá árinu 1974 hefur veiðin einungis þrisvar verið betri. Viðskiptablaðið heyrði í nokkrum veiðileyfasölum og eru menn almennt sammála um að salan hafi sjaldan gengið jafnvel og í vetur.

„Veiðileyfasalan hefur gengið rosalega vel og úthlutunin gekk líka alveg sérstaklega vel," segir Ari Hermóður Jafetsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur. „Þetta er umfram björtustu vonir. Það er uppselt í Andakílsá og Gljúfurá.  Haukadalsá er uppseld fram í september, Hítará á er nánast uppseld og Langá uppseld fram í ágúst."

Ari Hermóðir segir ekki hægt að bera söluna í vetur saman við söluna síðasta vetur. "Þetta er eins og svart og hvítt. Eftir svona frábært veiðisumar eins og núna síðast þá tekur salan gríðarlega við sér."

Mikil ásókn í Blöndu

Árni Baldursson, er eigandi Lax-á, sem er með fjölda laxveiðiáa á leigu og þar á meðal eina af spútnikám síðasta sumars, Blöndu. Tæplega 5 þúsund laxar veiddust í ánni í fyrra sem var met og aðeins Ytri-Rangá og Miðfjarðará skiluðu betri veiði.

„Þetta hefur gengið mjög vel," segir Árni. „Það er gott hljóð í mönnum og mikill veiðihugur í öllum."

Árni segir að allur markaðurinn virðist vera að taka mikið við sér. Hann finni fyrir mikilli aukningu hjá Íslendingum en líka erlendum veiðimönnum. „Margir eru að hætta í Rússlandi og færa sig hingað. Það er bæði vegna þess að veiðin þar hefur dalað og síðan er ástandið nokkuð ótryggt í Rússlandi um þessar mundir. Veiðin í Skotlandi og Noregi var líka frekar léleg í fyrra og Ísland nýtur góðs af þessu."

Að sögn Árna er Blanda svo gott sem uppseld til 10. ágúst.

Biðlistar í Laxá í Dölum og Hrútafjarðará

Jón Þór Júlíusson, hjá veiðifélaginu Hreggnasa, segir að veiðileyfasalan sé með albesta móti.

„Sala til erlendra veiðimanna er búin að vera góð undanfarin ár og haldið markaðnum svolítið uppi. Íslendingarnir eru að taka við sér núna og við finnum fyrir meiri áhuga innanlands en á sama tíma er eftirspurnin erlendis frá líka að aukast.
Svalbarðsá og Brynjudalsá eru uppseldar sem og Laxá í Dölum en það er biðlisti í hana. Þær eru teljandi á fingrum annarrar handar stangirnar sem við eigum lausar í Grímsá og Laxá í Kjós."

Þröstur Elliðason, hjá Strengjum, sem er með Hrútafjarðará, Jöklu, Breiðdalsá og Minnivallalæk á sínum snærum, tekur í sama streng og hinir.

„Þetta er allt annað en í fyrra," segir Þröstur. „Hrútafjarðará er uppseld og það er biðlisti í hana. Fyrir austan, í Breiðdalsá og Jöklu, er meira bókað en fyrir ári og það eru að megninu til erlendir veiðimenn."

Fáar stangir til í Norðurá

Einar Sigfússon er annar eigenda Haffjarðarár og sér líka um sölu veiðileyfa í Norðurá. Hann segir að líkt og undanfarin ár sé uppselt í Haffjarðará. Hvað Norðurá varðar segir hann að nánast sé að verða uppselt í hana.
„Ég á nokkrar stangir í júní en það er uppselt í júlí og fram yfir 21. ágúst."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • laxveiði