*

Menning & listir 29. september 2012

RIFF: Hressu hórurnar

Fokkens hórurnar kynnir tvær magnaðar sjötugar tvíburasystur sem kunna að hlægja að lífinu.

Fokkens hórurnar (e. Meet the Fokkens) fjallar um tvær sjötugar vændiskonur sem eru tvíburasystur í þokkabót. Önnur þeirra er enn starfandi, en þær hafa báðar áratugareynslu af rauða hverfinu í Amsterdam.

Myndin er glettin, brosmild og sérstaklega áhugaverð innsýn inn í líf þeirra Fokkens systra, þó að skautað sé framhjá nokkrum veigamiklum atriðum. Umræðan með öðrum leikstjóranum á eftir myndinni varpaði ljósi á að þau völdu að sleppa ákveðnum atriðum sem hefðu gert myndina erfiðari og dimmri fyrir áhorfandann. Hér fáum við síður að kynnast næturlífi kvenna í rauða hverfinu heldur frekar skoðunum og lífi systranna tveggja í dag.

Til að byrja með mátti halda að um væri að ræða heimildarmynd um hamingjusömu hóruna. Það litast helst af karakter kvennanna, þar sem þær hafa einstakt lag á því að taka lífinu með brosi og hlægja að hlutunum. Sum atriðin í myndinni eru fyndin og ná ótrúlegri stemmningu. Til að mynda þegar þær fara að skoða kynlífshjálpartæki í þar til gerðri verslun virðist það þeim jafn eðlilegt eins og að versla í matinn. En þó það komi manni spánskt fyrir sjónir að sjá tvær sjötugar konur í þessum aðstæðum, þá er þetta lífið eins og þær þekkja það. Eins og leikstjórinn sagði i lok myndarinnar, það er engin skömm til staðar lengur í þeirra hugum, einhversstaðar á þessari löngu leið þeirra var hún skilin eftir. 

Samt sem áður er ávallt alvarlegur undirtónn í myndinni sem bendir til að skuggahliðarnar séu fleiri en endilega er greint frá. Maður fær að kynnast mörgum áhugaverðum hliðum í lífum þeirra, til að mynda hvernig þær leiðast út í vændi og hvernig samskipti þeirra við fyrri maka og börn hafa verið. Mögnuð mynd.

Höfundur: Guðni Rúnar Gíslason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: RIFF 2012  • Fokkens