*

Menning & listir 28. september 2012

RIFF: Skrýtnir Íslendingar með skrýtnar hugmyndir

Drottningin af Montreuil á ágætis spretti en verður seint talin eftirminnileg.

Guðni Rúnar Gíslason

Drottningin af Montreuil er opnunarmynd RIFF þetta árið en myndin er leikstýrð af Sólveigu Anspach. Myndin hefst á flugvelli í Frakklandi þar sem tveir skrýtnir Íslendingar ákveða að pranga sér inn á franska konu sem er að koma heim með ösku nýlátins eiginmanns. Sú franska virðist eiga erfitt með að segja nei og Íslendingarnir, leiknir af Diddu Jónsdóttur og Úlfi Ægissyni ganga á lagið.

Myndin stafar það nánast ofan í áhorfendur að hugmyndir Íslendinga séu skrýtnar. Eða eins og Úlfur segir í myndinni: „This is very Icelandic,“ þegar verið er að tala um endurholdgun manna í gegnum dýr. Stundum er nóg að elda matinn, það þarf ekki að tyggja hann fyrir mann líka.

Myndin verður seint talin eftirminnileg þó að hún eigi ágæta spretti inni á milli. Hún nær því að vera fyndin á köflum og er vel hægt að kalla þetta fína afþreyingu. Sem opnunarmynd nær hún þó ekki þeim hæðum sem slíkar myndir eiga að ná.

Höfundur: Guðni Rúnar Gíslason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. gudni@vb.is