*

Menning & listir 28. september 2012

Riff: Súrrealískur raunveruleiki

Skemmtileg mynd um bandarísk hjón sem hyggjast byggja stærsta heimili í heimi en fjármálakreppan setur allt úr skorðum.

Guðni Rúnar Gíslason

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF hófst í Reykjavík í gær og gátu gestir hátíðarinnar valið á þriðja tug mynda á fyrsta degi. Drottning Versala  er fyrsta myndin sem valin var þetta árið af minni hálfu. Um er að ræða heimildarmynd þar sem fylgst er með bandarísku Siegel hjónunum  sem eru á toppi veraldar og hyggjast byggja stærsta heimili í heimi.

Myndin væri frábært innlegg í fjármálakennslu fyrir ungt fólk í dag. Raunar er þetta kennslumyndband í því hvernig hægt er að eyða fáránlegum fjárhæðum í fáránlega hluti. Raunar er fjölskyldan svo smekklaus að það getur ekki talist góð auglýsing fyrir merkjavöru á borð við Chanel og Gucci þegar vörur þeirra birtast í myndinni.

Þegar halla fer undan fæti hjá fyrirvinnunni og fyrirtæki hans haustið 2008 þá dvínar fjörið og fer að örla á örvæntingu í hugum fjölskyldunnar. Þessi fasi í lífi fjölskyldunnar endurspeglast einnig í rólegri takti í myndinni og jaðrar við að maður fari að vorkenna Siegel fjölskyldunni þegar þau eru með buxurnar á hælana, þurfa að fækka þjónustuliðinu úr 19 í 4 og hundaskítur er á víð og dreif út um allt hús.

Klárlega mynd sem er þess virði að fara á ef maður er gefinn fyrir súrrealískan raunveruleika. Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni. Þrjár sýningar á myndinni eru eftir á RIFF en næst verður hún sýnd 2. október klukkan 18:00 í Bíó Paradís.

Höfundur: Guðni Rúnar Gíslason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. gudni@vb.is

Stikkorð: Drottning Versala  • Siegel  • RIFF 2012