*

Menning & listir 20. maí 2021

Ríflega helmingur spáir Íslandi í topp 10

Ríflega helmingur landsmanna, eða um 54%, spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum í Eurovision í ár.

Ríflega helmingur landsmanna, eða um 54%, spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) í ár en 7% spá því að Daði og félagar þurfi að bíta í það súra epli að lenda í einu af þremur neðstu sætum keppninnar. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

88% svarenda sem spá íslenska framlaginu, sem heitir 10 Years, meðal 25 efstu laga keppninnar og þar með þátttöku í lokakeppni Eurovision næstkomandi laugardagskvöld. 

Er bjartsýni landsmanna á velgengni Daða og Gagnamagnsins svipuð og gagnvart Hatara í keppninni 2019, er 49% landsmanna spáðu íslenska framlaginu sæti á meðal 10 efstu þjóða.

„Alls kváðust 22% telja að íslenska lagið muni enda í 1.-5. sæti, 32% spáðu því 6.-10. sæti, 15% 11.-15. sæti, 16% 16.-20. sæti, 3% 21.-25. sæti, 4% 26.-30. sæti, 1% 31.-35. sæti og 7% 36.-39. sæti,“ segir í tilkynningu MMR þar sem niðustöðurnar eru kynntar.

Konur bjartsýnni en karlar

„Konur (57%) reyndust líklegri en karlar (49%) til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum Eurovision í ár en karlar (9%) reyndust heldur líklegri til að spá þeim einu af þremur neðstu heldur en konur (5%),“ segir jafnframt í tilkynningu MMR.  

Reyndist yngsti aldurshópurinn mest bjartsýnn meðal svarenda, en 59% þeirra spá Daða og Gagnamagninu sæti meðal 10 efstu og aðeins 4% spáðu þeim sæti meðal þriggja neðstu. Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu, 56% svarenda, líklegri en þau af landsbyggðinni, 48% svarenda, til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum keppninnar.

Sósíalistar bjartsýnastir en Miðflokksfólk svartsýnast

„Nokkurn mun mátti sjá á bjartsýni á gengi 10 Years eftir stjórnmálaafstöðu svarenda. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (69%), Pírata (68%), Samfylkingarinnar (67%) og Sósíalistaflokks Íslands (62%) reyndust líklegust til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum en stuðningsfólk Miðflokksins (35%) og Sjálfstæðisflokksins (44%) reyndist ólíklegast. Bjartsýni á gengi íslenska lagsins reyndist mest meðal stuðningsfólks Sósíalistaflokksins en heil 37% þeirra spáðu íslenska laginu einu af fimm efstu sætunum. Öllu minni bjartsýni var að sjá meðal stuðningsfólks Miðflokksins, en 33% þeirra spáðu Daða og Gagnamagninu einu af þremur neðstu sætum keppninnar í ár,“ segir að lokum í tilkynningu MMR.

Stikkorð: MMR  • Eurovision  • Daði og Gagnamagnið