*

Hitt og þetta 8. júlí 2013

Ríkasta þjóðin sjötta þyngsta í heimi

Yfirvöld í Katar hafa reynt margt til hafa áhrif á lifnaðarhætti íbúanna. Það nýjasta er átak í að ganga um verslunarmiðstöðvar.

Yfirvöld í Katar hafa reynt hvað þau geta í glímunni við eitt helsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar: Offitu. Byggðir hafa verið íþróttaleikvangar og garðar og haldin hafa verið maraþon með veglegum verðlaunum. Einnig hafa yfirvöld boðið upp á ókeypis mælingar á blóðfitu og blóðþrýstingi. Allt er þetta gert til að hafa áhrif á lífstílinn sem virðist hafa komið þjóðinni, sem er sú ríkasta í heimi, í 6. sæti yfir þyngstu þjóðir í heimi.

Vandamálið virðist meðal annars vera veðrið en eins og allir vita er ekki hægt að kaupa gott veður. Í sex mánuði á ári er hitastigið 37 gráður að meðaltali og þá er ekki auðvelt að fá fólk út að ganga, hvað þá að fá það til að stunda íþróttir utandyra. Yfir sumartímann fer hitinn upp í 48 gráður.

Nú hafa yfirvöld hins vegar sett á laggirnar nýja áætlun sem þeir kalla: „Step Into Health: Walk More, Walk the Mall,” sem á að fá Katara til að ganga um loftkældar verslunarmiðstöðvar, sér til heilsubótar.

Fjórar af helstu verslunarmiðstöðvum ríkisins taka þátt í áætluninni. Hengd hafa verið upp plaköt og kort með upplýsingum til fólks um hversu mörgum kaloríum má brenna við að ganga upp tröppur og svo framvegis.

Offita er viðkvæmt málefni í Katar og þykir mikið feimnismál að ræða þyngd við náungann. Tölur varðandi offitu sýna að Katar er þyngst af öllum þjóðum í Miðausturlöndum. Yfir 34% karla í Katar og 45% kvenna glíma við offitu og eru með IBM stuðul yfir 30.

Þessar tölur segja þó ekki alla söguna því þær eru byggðar á tölum frá öllum íbúum Katar sem eru 1,9 milljónir talsins. En meirihluti þessara 1,9 milljóna er erlent vinnuafl og ríkisborgarar Katar eru aðeins 250 þúsund. Og þar sem flestir útlendingar í landinu eru erlendir verkamenn sem vinna erfiðisvinnu allan daginn er líklegt að offituvandamálið á meðal ríkisborgara Katar sé mun alvarlegra en tölurnar segja til um.

Sjá nánar á The New York Times

Stikkorð: Katar  • Matur  • Offita