*

Sport & peningar 17. júní 2015

Ríkasti maður Afríku vill eignast Arsenal

Ætlar fyrst að klára að koma olíuvinnslustöð í heimalandinu í gagnið.

Nígeríski milljarðamæringurinn Aliko Dangote segir að bygging á olíuvinnslustöð í heimalandinu muni tryggja honum nægilegt fjármagn til að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal.

Dangote er ríkasti maður Afríku og er metinn á tæpa 15 milljarða dollara. Kveðst hann hafa stutt Arsenal frá því á níunda áratugnum og vill hann eignast félagið.

„Þegar þessi olíuvinnslustöð er komin á rétta braut, þá mun ég hafa nægan tíma og nægt fjármagn til að borga uppsett verð,“ sagði Dangote við BBC.

Bandaríkjamaðurinn Stan Kroenke er meirihlutaeigandi í Arsenal og á 66,64 prósent í félaginu. Milljarðamæringurinn Alisher Usmanov á 29,11 prósent og restina eiga minni hluthafar, þar á meðal fyrrum leikmenn og stuðningsmenn.

Dangote hafði áður áhuga á því að kaupa 15,9 prósenta hlut í Arsenal sem seldur var til Kroenke árið 2011 en hann dró sig úr því kapphlaupi.

Hann telur að Arsenal þurfi nýja eigendur til að ná betri árangri innan vallar, en afar langt er síðan liðið varð enskur meistari:

„Þeir eru að standa sig vel, en félagið þarf að breyta um stefnu. Í augnablikinu eru þeir bara að byggja upp leikmenn og selja þá.“

 

Stikkorð: fótbolti  • Afríka  • Arsenal  • íþróttir