*

Sport & peningar 5. maí 2015

Ríkasti maður Afríku vill kaupa Arsenal

Aliko Dangote dreymir um að eignast enska knattspyrnufélagið Arsenal.

Aliko Dangote, ríkasti maður Afríku, vill enn kaupa enska knattspyrnuliðið Arsenal þrátt fyrir að tilboði hans í klúbbinn hafi verið hafnað fyrir fimm árum síðan.

Auðæfi hins nígeríska milljarðamætings eru metin á 15,7 milljarða dala, en þau hafa sjöfaldast síðan hann átti síðast í viðræðum við eigendur liðsins um kaup á hlut í félaginu.

„Ég vona ennþá að ég muni eignast liðið,“ er haft eftir Dangote í frétt Bloomberg um málið. „Kannski kaupi ég klúbbinn, en ekki á uppsprengdu verði heldur fyrir fjárhæð sem eigendurnir geta ekki staðist.“

Stærsti hluthafi Arsenal er Stan Kroenke og á hann 67% hlut í félaginu. Auðæfi hans eru metin á 5,7 milljarða dala. Þá á rússneski auðjöfurinn Alisher Usmanov um 30% hlut í klúbbnum.

Takist Dangote ætlunarverk sitt mun hann verða fyrsti afríski eigandi klúbbs í ensku úrvalsdeildinni. 

Nánar á vef Bloomberg.

Stikkorð: Arsenal  • Aliko Dangote