*

Veiði 21. júní 2018

Risableikja úr Elliðavatni

Daníel Ernir Njarðarson veiddi eina stærstu bleikju sem veiðist hefur í Elliðavatni.

Trausti Hafliðason

Miðvikudagurinn 6. júní mun seint líða hinum sautján ára gamla Daníel Erni Njarðarsyni úr minni. Þá fékk hann ömmu sína, Björgu Einarsdóttur, til að skutla sér að Bleikjutanga í Elliðavatni. Áður en Daníel steig út úr bílnum varpaði amma hans fram frekar viðkvæmri spurningu. Hún spurði Daníel að því hvort hann fengi nokkurn tímann fisk í Elliðavatni? Daníel svaraði ekki spurningunni heldur hummaði hana fram af sér.

„Það sem ég sagði henni ekki er að ég hafði á þessum tímapunkti veitt í vatninu í þrjú ár án þess að fá fisk,“ segir hann og hlær. „Í vor setti ég mér eitt markmið og það var að ná fiski í þessu blessaða vatni. Þegar ég var kominn út á tangann setti ég Pheasant Tail undir og í þriðja kasti tók bleikjan. Hún rauk strax út með alla línuna og slatta af undirlínunni. Ég var með fjögurra punda taum undir og þorði því ekki að taka mjög fast á henni enda fann ég fljótlega að þetta var vænn fiskur. Eftir svona korter náði ég að landa bleikjunni og þá fyrst sá ég hverslags risableikja þetta var. Hún var alveg ótrúlega feit og vel haldin.“

Útskrifaður úr háskóla fluguveiðimanna

Daníel segir að bleikjan hafi verið 56 sentímetra löng og um sex pund.

„Biðin eftir fyrsta fiskinum úr Elliðavatni var því vel þess virði. Nú er ég útskrifaður úr háskóla fluguveiðimanna,“ segir Daníel og vísar til þess að Elliðavatn gengur oft undir því heiti vegna þess hversu erfitt getur verið að ná í fisk þar. „Ég hef veitt helling af bleikju og þá mest í Fjarðará við Siglufjörð en ég hef aldrei náð neinni svona stórri áður.“

Daniel byrjaði að stunda stangaveiði fyrir fjórum til fimm árum og er í dag forfallinn veiðimaður.

„Þótt það sé hrikalega gaman að fá fisk þá er það ekki það eina sem heillar mig. Það er eitthvað við það að vera úti í náttúrunni, veiða og núllstilla sig.“ Daníel stefnir að því að veiða mikið í sumar. Eftir nokkra daga fer hann í Haukadalsá, sem hann segir vera í miklu uppáhaldi en hann ætlar líka í Móru á Barðaströnd og Ísafjarðará. „Ég fór í fyrsta skiptið í Haukadalsá í fyrra með pabba mínum,“ segir hann. Spurður hvað hann hafi veitt marga svarar hann: „Pabbi sagði að fjölskyldan hefði fengið tvo en ég fékk þá reyndar báða.“ Þó að Haukadalsá sé í uppáhaldi þá þykir Daníel vænst um Ísafjarðará. Þá á hefur hann stundað með mömmu sinni, Huldu Margréti Pétursdóttur og afa sínum, Pétri Sigurðssyni.

Svakaleg bleikja

Ingimundur Bergsson, sem oft er kenndur við Veiðikortið, hefur séð myndina af bleikjunni sem Daníel veiddi.

„Þetta er sennilega ein svakalegasta bleikja sem ég hef séð,“ segir Ingimundur. „Bleikjan hefur greinilega verið í nóg af fæði enda er hún hnöttótt. Ég hef í gegnum tíðina séð nokkrar vænar úr Elliðavatninu, en enga sem þessa. Ég held reyndar að ég hafi aldrei séð eins þykka bleikju yfirhöfuð. Þessi bleikja er alveg einstök því hún er svo feit.“

Nú hefur bleikjan verið á undanhaldi í Elliðavatni. Spurður hvort hann telji að það sé að breytast svarar Ingimundur: „Það er erfitt að segja til um það. Urriðinn hefur verið meira áberandi síðustu ár. Ég tel að bleikjan haldi sig á meira dýpi og í kaldara vatni. Þess vegna sjáum við minna af henni. Ég hef trú á því að það sé samt nóg af henni í vatninu og hún muni birtast í meira mæli þegar og ef meðalhitinn í vatninu fer að lækka aftur.

Veiðimaðurinn Geir Thorsteinsson þekkir Elliðavatn betur en flestir. Hann fór í sína fyrstu veiðiferð þangað með föður sínum árið 1954, þá einungis sex ára gamall. Geir tekur undir með Ingimundi og segist aldrei hafa séð svona stóra bleikju koma land við Elliðavatn. „Þetta er glæsileg bleikja og skemmtilegt fyrir okkur veiðimenn að vita af svona fiskum í vatninu."

Viðtalið við Daníel er að finna sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.