*

Veiði 24. júlí 2018

Risalax í Aðaldalnum

Stjórnarformaður Arnarlax veiddi risalax í Laxá í Aðaldal.


Kjartan Ólafsson veiddi 103 sentímetra lax á veiðistaðnum Spegilflúð í Laxá í Aðaldal í morgun. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Laxár í Aðaldal. Undanfarnar vikur hefur fjöldi stórlaxa veiðst í Aðaldalnum og skemmst er minnast þess þegar danski galdraveiðimaðurinn Nils Folmer Jörgensen veiddi stærsta lax sumarsins í Vitaðsgjafa fyrir helgi. Sá mældist 111 sentímetrar.

Kjartan Ólafsson er greinilega lunkinn veiðimaður eins og 103 sentímetra laxinn sýnir. Kjartan er líka stjórnarformaður Arnarlax, sem stundar sjókvíaeldi á löxum á Vestfjörðum. Arnarlax er eitt stórtækasta laxeldisfyrirtæki landsins og hafa forsvarsmenn þess sem og Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands Fiskeldisstöðva, eldað grátt silfur við þá er vilja vernda íslenska stofninn fyrir eldislaxi af norsku kyni. Landssamband veiðifélaga hefur staðið í fremstu víglínu þeirra er vilja varðveita íslenska stofninn en formaður þess félags er Jón Helgi Björnsson, sem er líka formaður Laxárfélagsins í Aðaldal.

Á myndinni, sem fengin er af Facebook-síðu Laxár í Aðaldal, er Kjartan ásamt eiginkonu sinni Halldóru Kristjánsdóttur, með 103 sentímetra laxinn.