*

Menning & listir 3. nóvember 2013

Ritstjóra Rolling Stone fannst Grísalappalísa góð

David Fricke hefur komið margoft á Iceland Airwaves og segist eiga hér orðið góða vini.

Jón Adalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Grísalalappalísa var góð og danska hljómsveitin Baby in Vain líka,“ segir David Fricke, ritstjóri hjá bandaríska tónlistartímaritinu Rolling Stone. Hann hefur komið hingað til lands undanfarin ár í því skyni að sjá og heyra í þeim hljómsveitum sem troða upp á Iceland Airwaves. Í gær fylgdist hann með frábærum tónleikum Ghostigital í Listasafni Reykjavíkur.

Fricke, sem er með áhrifamestu tónlistarblaðamönnum í hinum vestræna heimi, ræddi stuttlega við blaðamann Viðskiptablaðsins á milli atriða á listasafninu. 

Kom hingað vegna viðtals við Sykurmolana

Hann segist hafa komið hingað í áraraðir, fyrst árið 1988 til að taka viðtal við Sykurmolana en sama ár kom út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Life's Too Good. Aftur kom hann til að fara á útgáfutónleika Sigur Rósar í Gamla Bíói árið 1999 þegar hljómsveitin kynnti Ágætis byrjun.

„Ég hef fylgst vel með Sigur Rós síðan þetta var og séð tónleika þeirra margoft,“ segir hann og rifjar upp tónleika hljómsveitarinnar á Airwaves-hátíðinni í Laugardalshöll í fyrra þegar Sigur Rós frumflutti lagið Brennistein af nýjustu plötu sveitarinnar, Kveik. Honum þótti mikið til koma og sagði í kjölfarið hljómsveitina komna inn á áhugaverðar slóðir.

Fannst Of Monsters & Men góð

Honum telst til að hann hafi komið í kringum átta sinnum, oftast til að fara Iceland Airwaves sem hann segir góðan og mikilvægan vettvang til að kynna tónlistarmenn og hljómsveitir, hvort heldur er íslenskar sem erlendar, fyrir tónlistarskríbentum hvaðanæva að úr heiminum. Það geti gert gæfumun fyrir böndin og opnað þeim dyr út í hinn stóra heim.

Þegar Fricke var sjálfur gestur tónlistarhátíðarinnar árið 2010 fannst honum mikið koma til hljómsveitarinnar Of Monsters & Men, sem hafði unnið Músíktilraunir fyrr um árið. Þetta reyndist vindur í seglin sem hljómsveitin nýtti sér og þarf vart að fara nánar út í sigurgöngu hennar síðan þá.

„Nú hef ég komið svo oft að ég á orðið góða vini hér,“ segir Fricke að lokum. Í þeim töluðu orðum vindur sér að honum Einar Örn Benediktsson í Ghostigital og faðmar hann að sér. Í sama mund slær bandaríski tónlistarmaðurinn Mykki Blanco taktinn og við hættum að geta greint orðaskil.