*

Matur og vín 2. október 2016

Rjúkandi heitt alla daga

Allt hráefni Brauð & Co er bakað og framleitt á staðnum og er röð út á götu alla daga.

Eydís Eyland

Ágúst Fannar Einþórsson opnaði bakaríið Brauð og Co. á Frakkastíg um síðastliðna páska. Allt hráefni er bakað og framleitt á staðnum og er röð út á götu alla daga eftir rjúkandi heitu „croissant“ eða kanilsnúð.

Gústi segir að móttökurnar á Brauð & Co. hafa verið gríðarlega góðar og að hann anni ekki eftirspurn þó að liðnir séu fjórir mánuðir frá opnun. Þegar Gústi er spurður út í hvers vegna hann fór út í þennan bransa segir hann að hann sé lærður konditori-meistari.

„Mér finnst samt skemmtilegra að baka þar sem mér var ekki úthlutið mikil þolinmæði“ segir Gústi og hlær.

„Ég og vinur minn Þórir Snær ákváðum að ráðast í þetta verkefni saman og duttum inn á þetta húsnæði og ég var að gera svipað í Kaupmannahöfn þ.e.a.s ég opnaði bakarí, kaffihús og fleira í þeim dúr þannig að ég hef verið mikið inn í rekstri.“

Hvernig er Brauð & Co. frábrugðið hinum bakaríunum?

„Hjá okkur er allt handunnið frá A-Ö. Mér finnst handverkið vera að deyja fyrir vélavæðingu í bakstrinum. Það auðvitað gerir það að verkum að ég er ekki með margar tegundir þannig að hraðinn, einfaldleikinn og hvað ég get framleitt mikið á ákveðnum tíma skiptir gríðarlegu máli. Ég er búinn að skera niður eins mörg handtök og ég get en á sama tíma framleitt mörg stykki en með besta mögulega hráefni sem völ er á. Ég sem dæmi flyt inn mitt eigið hrá-marsipan, korn og mjöl til að vera viss um að fá þau gæði sem ég er að leitast eftir. Svo reynum við að nota eins mikið af íslenskri framleiðslu og völ er á. Öll brauðin okkar eru gerlaus og lífræn. Bakkelsið er eins lífrænt og hægt er, það er sem sagt ekki lífrænt smjör en íslenska smjörið þykir samt mjög gott, allt annað er lífrænt, t.d. hveitið, sykurinn, súkkulaðið, fræin. Hráefnin eru öll keypt frá Þýskalandi og Danmörku þar sem ég hef persónuleg sambönd sem ég hef fengið eftir ár mín í Danmörku. Ég sem dæmi vinn náið með myllum í þessum löndum. Þær sjá um að mala fyrir mig hluta af hveitinu sem við notum. Það er ekkert brauð sem ég framleiði með sömu hveiti- eða mjölsortinni."

Nánar er rætt við Gústa í nýjasta tölublaði Eftir Vinnu, en áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast blaðið á rafrænu formi með því að smella á Tölublöð.

Stikkorð: Eftir vinnu  • matur  • bakarí  • Brauð & Co