*

Veiði 5. nóvember 2016

Rjúpnaveiðin hafin

Skotveiðimönnum gekk misjafnlega um síðustu helgi en þá hófst rjúpnaveiðitímabilið.

Trausti Hafliðason

Rjúpnaveiðin hófst um síðustu helgi. Eins og síðustu þrjú ár er leyfilegt veiða í 12 daga og skiptast þeir dagar á fjórar helgar. Veitt er frá föstudegi til sunnudags og verður síðasti veiðidagurinn þann 20. nóvember.

Í nokkur ár hefur verið í gildi sölubann á rjúpum og hefur Umhverfisstofnun beint þeim tilmælum til veiðimanna að veiða ekki fleiri rjúpur en þörf sé á. Í ár er leyfilegt að veiða samtals 40 þúsund rjúpur, sem er 26% minna en í fyrra þegar heimil heildarveiði var 54 þúsund rjúpur.

„Rjúpnastofninn er ekki stór um þessar mundir og mælist nokkuð minni í ár en í fyrra," segir á vef Umhverfisstofnunar. „Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og miða veiðar við 5 til 6 fugla per veiðimann."

Misjafn gangur

Eins og gengur gekk skotveiðimönnum misjafnlega vel um síðustu helgi. Víða voru aðstæður erfiðar fyrir rjúpnaveiði.
Stefán Sigurðsson er margreyndur veiðimaður. Hann á og rekur fyrirtækið Iceland Outfitters ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín Þórðardóttur. Iceland Outfitters  er ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðiferðum fyrir erlenda ferðamenn.

„Ég er gamall atvinnumaður í rjúpnaveiði ef svo má að orði komast," segir Stefán. „Ég fór samt ekkert um síðustu helgi en það er líklegt að ég einhverja af næstu helgum. Ég hef ekki verið að stunda þetta núna af sömu áfergju og ég gerði vegna þess að ég hef atvinnu af gæsaveiðum."

Lesa í aðstæður

Stefán er líka mjög vanur stangaveiðimaður og hefur veitt lax síðan hann var gutti. Oft er talað um að rjúpnaveiðin sé ekkert ólík laxveiðinni að því leyti að veiðimaðurinn þarf að lesa í aðstæður. Í laxveiðinni þurfa veiðimenn til dæmis að kunna að lesa vatnið og vita hvar fiskurinn er þegar vatnsrennslið er hefðbundið og hvar hann er þegar mikið vatn er í á eða lítið.

„Mér finnst ekkert sport vera jafn skemmtilegt og rjúpnaveiðin," segir Stefán. „Rjúpan er aldrei alltaf á sama staðnum og þessi veiði snýst því mikið um að leita og þá er nauðsynlegt að kunna að lesa í aðstæður. Veiðimenn verða að lesa í vindinn, fjallshlíðina og snjóalögin.

Síðan sameinar rjúpnaveiðin fjalla- og veiðimennsku. Veiðimenn eru kannski að ganga 20 til 30 kílómetra yfir daginn og það getur tekið mjög mikið á.  Margir dagar eru þannig að maður er búinn að ganga allan daginn en síðan loksins sér maður rjúpu og það er mjög ánægjulegt. Þetta er ekki ósvipað vorveiðinni í laxinum. Þá þarf maður oft að eyða löngum tíma í að finna  fiskinn en síðan loksins sér maður hann í einum hylnum og það er gleðistund.

Í rjúpnaveiðinni er mjög gott að hafa snjólínur í fjöllunum. Á þessum árstíma er rjúpan búin að skipta um lit og leitar því í snjóinn, þar sem hún getur falið sig og er örugg. Hún leitar mikið í snjó sem er ekki of djúpur, þannig að hún hafi líka kropp og geti étið. Þar sem rjúpan er með loðna fætur þá líður henni illa í blautum snjó. Þegar aðstæður eru þannig leitar hún gjarnan annað, jafnvel í grjót og á mela. Þetta er ástæðan fyrir því að fólk sér oft rjúpur á vegum þegar það er rigning. Menn þurfa að pæla í alls konar svona atriðum þegar þér eru á rjúpnaveiðum."

30 rjúpur

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að rjúpnastofninn sé í lágmarki um vestanvert landið og í niðursveiflu um landið austanvert.

„Mér hefur yfirleitt gengið best á Norðurlandi. Það er mjög fallegt fyrir vestan en ég hef aldrei lent í neinni magnveiði þar. Ég frétti af nokkrum veiðimönnum sem fóru í Húnavatnssýslu um síðustu helgi og þeir voru saman með 30 rjúpur og síðan frétti ég af þremur öðrum sem voru  á svipuðum slóðum og þeir veiddu 22 tvær rjúpur saman."

Stefán segir að þó verið sé að biðla til veiðimanna um að veiða ekki meira en 5 til 6 rjúpur þá í sé í raun enginn kvóti.

„Ég efast um að margir fylgi þessu. Það sem hefur gerst eftir að sölubannið var sett og veiðimenn fengu þessi tilmæli er að nú segja fáir hvað þeir hafa veitt af hræðslu um að vera úthrópaðir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Rjúpa  • Skotveiði